154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

raforkulög.

541. mál
[20:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður svaraði því nú ekki hvort hann teldi eðlilegt að bíða í 20 ár eftir því hvort það megi hefja orkuframleiðslu í sínu eigin landi. Ég vil taka það fram, hv. þingmaður, að ég er náttúrusinni og mér þykir t.d. hraun afar fallegt og það er afar fallegt Skaftáreldahraunið og í Skaftárhreppi. Ég hef gengið um þetta svæði þar sem eru fyrirhuguð virkjunaráform í Hverfisfljóti og ég hef séð meira að segja kort af þessu og ég get ekki séð að þetta sé mikið lýti í landinu þar. Við eigum náttúrlega líka að hugsa til þess að þarna eru landeigendur sem hafa búið alla sína ævi á þessum stað og auðvitað hafa þeir tilfinningar gagnvart landinu. Það má ekki draga það í efa. (OPJ: Ég er ekki að því.) En þetta er líka fólk sem er kannski að hugsa um sitt lífsviðurværi og að nýta sínar auðlindir sem það á, þjóðinni til hagsbóta, áttum okkur á því. Við erum að fara í orkuskipti, við þurfum að framleiða meira rafmagn og þetta er loftslagsmál o.s.frv. Ég vil bæta við að þetta hefur þær afleiðingar, hv. þingmaður, að þeir sem hafa kannski hugsað sér að fara í, segjum bara litla raforkuframleiðslu, 1–2 megavött, sem er mikilvægt, smávirkjanir eru mikilvægar fyrir okkur og sérstaklega nú á tímum — heldur hv. þingmaður að þetta hvetji fólk til þess að fara í svoleiðis ferli þegar það horfir upp á margra ára bið með tilheyrandi kostnaði o.s.frv.? Og svo koma stjórnmálamenn og segja: Ja, kerfið á bara að vera þunglamalegt, það á bara að vera svona, þú átt bara að bíða og bíða. Nei, hv. þingmaður, ég held að þetta geti ekki staðist. Ég held að við verðum að endurskoða þetta ferli og ég ætla að vona að það verði niðurstaðan að við endurskoðum þetta kerfi. Það eru of margar stofnanir sem koma að þessu, það þarf að einfalda þetta kerfi. Ég er ekki að segja það að ef menn hafa hugmynd að virkjun þá eigi það að vera samþykkt daginn eftir en það á ekki að taka 20 ár að fá svo nei.