154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

tímabundinn vaxtabótaauki.

[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur talað mjög fyrir aðhaldssemi í ríkisfjármálum og það er það sem þessi fjárlög endurspegla, þau endurspegla aðhaldssemi. Það er bara staðreynd málsins. Og af hverju erum við að gera það? Jú, við erum að reyna að tryggja að ríkisfjármálin styðji við peningastefnuna þannig að verðbólgan gangi niður. Hv. þingmaður spyr síðan sérstaklega um vaxtabótaauka sem einu leiðina til að styðja við heimilin í landinu. Ég vil bara minna á að við erum með mjög fjölþættan stuðning á sviði húsnæðismála. Það sem þessi ríkisstjórn hefur gert er að einbeita sér að því að auka framboðið því við erum með ákveðinn skort á húsnæðismarkaði. Þá þarf að horfa á framboðið og það þarf að huga að regluverkinu í kringum húsnæðismarkaðinn. Hingað inn er á leiðinni frumvarp um réttarstöðu leigjenda og hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hefur verið að vinna að breytingum á regluverki í kringum svokallað Airbnb-hagkerfi á húsnæðismarkaði. Við þurfum einmitt að horfa heildstætt á þetta. Svo vil ég bara minna hv. þingmann á að kaupmáttur launa hefur hækkað um 3% á árinu. Það er ekki í krónum talið (Forseti hringir.) heldur sjálfur kaupmátturinn. Þannig að það að draga upp þá mynd að hér sé allt í kaldakoli, þótt vissulega sé verðbólgan þrálát og vaxtastigið hátt, er ekki raunsönn mynd, herra forseti.