154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

brottvísun flóttafólks frá Palestínu.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ef ég byrja fyrst á hinu almenna þá voru auðvitað þær aðstæður uppi þegar Rússar réðust inn í Úkraínu að Evrópa tók öll sameiginlega ákvörðun um að beita ákvæði um hópflótta sem gerir það einfaldara í framkvæmd eins og hv. þingmaður skilur. Við höfum fengið einhverjar þúsundir Úkraínumanna hingað, 1.500 á þessu ári, en auðvitað mörg ríki sem hafa fengið mun fleiri, margar milljónir flóttamanna frá Úkraínu og hafa tekið á móti þeim. Ég held að það skipti miklu máli að þessir hlutir séu ræddir á vettvangi alþjóðasamfélagsins þannig að ríki heims geti sameinast um þessi mál. En vissulega er það síðan svo að við höfum ýmislegt að segja um þau sem eru hingað komin og hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega mál tveggja drengja sem eru hér. Fram hefur komið að úrskurður í þeirra máli er ekki endanlegur. Málinu hefur verið áfrýjað til kærunefndar útlendingamála, þetta er úrskurður frá Útlendingastofnun sem um ræðir. Í lögum um útlendinga kemur fram að það skuli hafa það sem barninu er fyrir bestu að leiðarljósi og þar eigi að líta til möguleika barna að á fjölskyldusameiningu, öryggis, velferðar og félagslegs þroska og það skuli ávallt framkvæma sérstakt hagsmunamat. Við erum auðvitað með þetta kerfi og kærunefnd útlendingamála hlýtur væntanlega að fara yfir þetta mál út frá nákvæmlega þessu og hagsmunamat á stöðu barna er eitthvað sem ég hef lagt mikla áherslu á og ég man það vel að fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, beitti sér mjög í þessum málum í sinni tíð í dómsmálaráðuneytinu og ég ímynda mér að þetta hljóti að koma til sérstakrar skoðunar hjá kærunefnd útlendingamála. Síðan vil ég bara nefna það, af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega stöðuna á Gaza, (Forseti hringir.) að mál sem varða fjölskyldusameiningar hafa að sjálfsögðu verið til skoðunar hjá Útlendingastofnun. Þar eru nokkrar hindranir í vegi af því að það er erfitt að komast af svæðinu. En þessi mál hafa verið til skoðunar hjá Útlendingastofnun.