154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Nei, þetta eru í rauninni hinir svokölluðu varasjóðir málaflokka og málefnasviða sem eru til þess að dekka ákveðnar sveiflur í álagi verkefna af því að það er mismunandi álag á mismunandi árum. Ef við tökum t.d. bara Vegagerðina þá snjóar mikið eitt árið og þá þarf að eyða meiru í vetrarþjónustuna heldur en síðasta ár og þetta bara sveiflast fram og til baka. Þarna þarf að vera svigrúm til þess að bregðast við þeim verkefnum sem á að sinna. Þegar ný verkefni koma inn þá ganga þau á það svigrúm. Þá verður allt þrengra og minna hægt að bregðast við aukinni kröfu um vetrarþjónustu. Þá fer allt í mínus af því að það var bætt við nýju verkefni eitt árið en fjárlög ganga yfir á næsta ár og þarnæsta ár o.s.frv. Þetta er vandinn sem við erum að glíma við. Þegar það er sett nýtt verkefni þá þarf það að vera kostnaðarmetið og sett inn í rammann með því kostnaðarmati til að við getum farið í endurmat útgjalda og spurt hvort það sé í raun og veru svona kostnaðarsamt að sinna því eða ekki, án þess að ganga á eðlilegt svigrúm verkefna innan málaflokka til að bregðast við árstíðabundnum eða árssveiflum hinna mismunandi verkefna sem við erum þegar að sinna. Ef þau hætta með eitthvert verkefni af því að það bara úreldist eða eitthvað svoleiðis þá fellur það úr rammanum með þeirri fjárheimild sem var áætlað að það verkefni myndi kosta að meðaltali yfir mörg ár. Þess vegna á ekki að vera hægt að búa til svigrúm fyrir ný verkefni innan allra hinna verkefnanna sem er þegar verið að vinna því að þá er eitthvað rangt áætlað (Forseti hringir.) og ómögulegt að fara í endurmat útgjalda.