154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

vopnalög.

349. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög góð ábending frá hv. þingmanni, að við skoðum þetta í 3. umræðu, og í raun og veru gott að málið skuli fara aftur til nefndarinnar því að það eru einmitt komnar þarna góðar ábendingar sem er mikilvægt að ræða frekar. Ég held að það sýni bara vönduð vinnubrögð hvað þetta frumvarp varðar að við séum að fara með það aftur í nefndina og fara yfir síðustu þættina sem hafa verið álitaefni. Það er gaman að heyra að hv. þingmaður er áhugamaður um bogfimi og gott að hafa fengið þetta sjónarmið vegna þess að þetta er sjónarmið sem var ekki mikið rætt í nefndinni. Ég hef svo sem ekki fleiru við það að bæta. En þetta er náttúrlega ólympísk íþrótt, bogfimi, og væri óskandi að við myndum skapa okkur sess á alþjóðavettvangi í þeim efnum. Ég bara þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu ábendingu og hún verður skoðuð í nefndarstarfinu.