154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

Störf þingsins.

[11:34]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Forseti. Á Íslandi búum við að fágætum auði þegar kemur að náttúru landsins. Þeim auði fylgir ábyrgð. Við höfum því miður of mörg dæmi þess að hafa farið óðslega fram í orkuöflun gagnvart viðkvæmri og einstakri náttúru landsins og samfélögunum sem undir eru. Við erum á góðri leið að byggja hér upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag og við ætlum að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040. En það þarf að virða mikilvægi þess að það ríki sátt um nýjar virkjanir. Að mínu mati, virðulegi forseti, þarf að leita allra leiða til að nýta betur þá orku sem þegar er framleidd, ná fram betri nýtingu í virkjunum sem fyrir eru og takmarka orkutap í orkukerfinu öllu. Nýleg skýrsla sýnir fram á mikla möguleika í því. Það er enginn sómi að því að sóa því sem gnægð er af. Til að mæta stærstu áskorun samtímans, loftslagsbreytingum, þurfum við að hraða orkuskiptum. Höfum í huga að öll skref á þeirri leið þurfa að vera tekin að vel yfirlögðu ráði og leggja þarf hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar til grundvallar allri ákvarðanatöku og þar með treysta náttúruvernd. Það er ekki gefið að aukin orkuframleiðsla skili sér lóðbeint í árangri í orkuskiptum svo stemma megi stigu við áhrifum loftslagsbreytinga. Það er ekki verkefnið að verða við öllum orkukræfum hugmyndum sem fólk fær. Það verður endalaus eftirspurn eftir grænni orku. Til að ná samfélagslegri sátt um aukna orkuöflun væri þakklátt að sjá umræðuna fara upp úr skotgröfunum, að við spöruðum okkur gífuryrðin og lögðum okkur fram um að leita lausna til framtíðar. Skammtímahagsmunir dagsins í dag mega ekki ráða för á kostnað framtíðarinnar.