154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[13:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér var talað um það að hugvitið ætti að vera stærsta atvinnugrein, útflutningsgrein íslensks samfélags og að við ættum að nýta hugvitið og nýsköpunina. Frá því að land byggðist hefur eiginlega eina hugvit Íslendinga og nýsköpun verið innan lista. Við erum að flytja út listir; tónlist, kvikmyndir o.fl. Þess vegna tek ég undir það með Listaháskóla Íslands að við eigum að hafa orðið listir í þessu stefnumarkandi plaggi til eflingar þekkingarsamfélagi. Ég get ekki séð hvernig íslenskt þekkingarsamfélag á að vera án þess að listir séu þar ein af meginstoðunum, hvort sem það er tölvuleikjagerð, heimasíðugerð eða hvað sem það er. Ég legg einnig til í þessari breytingartillögu að við tökum tillit til þeirra hugvitsmanna sem ekki eru háskólamenntaðir og að árangur hugvitsmanna verði kynntur almenningi og stutt verði við fræðslu á sviði nýsköpunar og hlúð að vænlegum hugmyndum á fyrsta stigi. Í þessu skjali hér er ekki verið að auka fjármagn (Forseti hringir.) til þekkingarsamfélagsins og ég vona að það verði gert í framtíðinni með öllum þeim tækjum og fjármunum sem við höfum.