154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[14:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Takmarkanir á aðgengi með virkri verðlagsstefnu, eða áfengisgjaldinu svokallaða, og smásölueinokun hafa verið mikilvægustu tæki ríkisins til að draga úr áfengistengdum skaða. Meginmarkmið okkar, eins og frændur vorra Svía, við lagasetningu, og ekki síst þegar um áfengi er að ræða, ætti að snúa að lýðheilsu, ekki síst til að draga úr skaðlegum læknisfræðilegum og félagslegum áhrifum áfengis. Við þekkjum kostnað samfélagsins vegna ótímabærra dauðsfalla og skerðingar á lífsgæðum, kostnað í heilbrigðisþjónustu og meðferð, framleiðslutap, ofbeldi og afbrotastarfsemi og þá hafa rannsóknir sýnt að há áfengisgjöld og fyrirkomulag smásölunnar hér á landi sé ein besta forvörnin. Það ætti að vera í forgangi þegar hugað er að breytingum á þessari löggjöf að framkvæma skuli lýðheilsumat af þeim aðgerðum áður en breytingar eru gerðar. Hér er því ekki fyrir að fara og því get ég ekki stutt þessa tillögu og við erum þrjú um það í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.