154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

almennar íbúðir og húsnæðismál.

583. mál
[15:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um almennar íbúðir og lögum um húsnæðismál. Það vill nú svo til að ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps og það er kannski ekki af góðu til komið, en almennt finnst mér að frumvörp sem þessi eigi að flytjast af viðkomandi ráðherra og það sé svo nefndarinnar að fjalla um þau og fara yfir. En þetta kom inn allt of seint og þetta er sú staða sem við erum í. Ég get tekið undir með hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér að auðvitað erum við öll sammála um það og stöndum saman í því að tryggja að Grindvíkingar hafi þak yfir höfuðið. Ég hef hingað til stutt þau mál sem tengjast þessum hamförum á Reykjanesskaganum og mun gera það áfram. Mér finnst engu að síður mikilvægt að segja það hér að þessi lagabálkur um almennu íbúðirnar og önnur lög sem tengjast húsnæðismarkaðnum eru alveg ofboðslega mikilvæg og þetta er svo viðkvæmur málaflokkur. Ég hef jafnvel talið að við höfum í gegnum tíðina verið að skipta okkur of mikið af þessum markaði sem slíkum. Við höfum verið óþreyjufull að bíða og sjá hvaða áhrif þær aðgerðir sem hið opinbera hefur gripið til skila og því hef ég almennt viljað gjalda ákveðinn varhug við slíku og viljað taka mér góðan tíma í að reyna að melta hvaða áhrif það hefur. Ég lít svo á að þetta frumvarp sem hér um ræðir, sem væntanlega verður að lögum annaðhvort á morgun eða eftir helgi, alla vega fyrir jól, sé mjög afmarkað utan um það neyðarástand sem ríkir nú hjá Grindvíkingum. Mér finnst það mjög mikilvægt því að ef við erum að tala um almennar aðgerðir þessu tengdar þá þarf það miklu betri yfirlegu og meiri tíma. Því vil ég bara ítreka það að ég held að það skipti mjög miklu máli.

Að því sögðu þá veltir maður fyrir sér af hverju maður sjálfur hafi ekki kveikt á því að það væri auðvitað alveg ljóst að sveitarfélög væru ekkert að koma með stofnframlag á tímum sem þessum, í þessum aðstæðum. Þá er ég að vísa í það að þegar þessi lagabálkur um almennu íbúðirnar var gerður, og á þeim tíma var ég nú á vettvangi sveitarfélaganna, þá var auðvitað hugmyndafræðin alltaf sú að sveitarfélögin myndu koma með sitt framlag í gegnum lóðir. Það held ég að hafi verið almennur skilningur hjá flestum sveitarfélögum að þannig myndu þau koma að þessu með sínu framlagi, með lóðum. Maður hefði því getað sagt sér fyrir fram að sveitarfélög væru ekki að fara að reiða fram stofnframlag fyrir þegar byggðar íbúðir fyrir Grindvíkinga sem eru áfram með lögheimili í Grindavík og það er nákvæmlega það sem við viljum eiginlega ekki sjá því að það er auðvitað mikilvægt fyrir sveitarfélagið Grindavík að halda áfram sínum útsvarstekjum. Þess vegna er það ekki óeðlileg krafa að ríkið komi inn með þessi stofnframlög en ég er kannski að reyna að benda á að þetta er samt sem áður mjög viðkvæmur málaflokkur þegar að þessu kemur og það þarf að vanda mjög til verka.

Mig langaði líka að nefna, vegna þess að Bjarg hefur byggt upp — nú man ég ekki hver fjöldi íbúða var en það var farið aðeins yfir það með okkur í hv. velferðarnefnd í gær, að ég er líka með ákveðnar efasemdir vegna þess að Bjarg er jú með tiltölulega þröng skilyrði um inngöngu í það leigudæmi, þ.e. að eignastaðan sé lág og tekjurnar mjög takmarkaðar. Þetta er hugsað fyrir fólk sem á ekki annarra kosta völ eða lágtekjufólk. Þegar félagið fer í að byggja upp heilu blokkirnar, heilu húsin með fjölda íbúða, þá er ég ekki viss um að það samræmist þeim markmiðum sem ég veit alla vega að mörg sveitarfélög hafa lagt áherslu á um blandaða byggð, bæði sérbýli og fjölbýli, en líka stórar og litlar íbúðir og að við fáum sem besta lýðfræðilega blöndun í hverfunum. Ég vil því nefna að ég held að það sé mjög mikilvægt þegar farið er í þessar aðgerðir að horft sé yfir hverfin öll og að við horfum á þennan lýðfræðilega fjölbreytileika — þá segi ég lýðfræðilega en ekki líffræðilega — sem þarf að vera og er held ég ofboðslega mikilvægur fyrir íslenskt samfélag. Þá er ég ekki síður að vísa í börnin okkar, skólana og þess háttar.

Að því sögðu þá treysti ég því að við í velferðarnefnd fáum tíma til að fara yfir þetta mál og velta yfir því vöngum. Ég tek undir mikilvægi þess að við ætlum auðvitað að tryggja Grindvíkingum þak yfir höfuðið og vænti þess að þetta frumvarp sé einmitt til þess gert að ná utan þau markmið en legg líka áherslu á mikilvægi þess að það er markmið þessara laga að horfa fyrst og fremst og eingöngu á húsnæðisþörf Grindvíkinga núna.