154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

endurnot opinberra upplýsinga.

35. mál
[18:30]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir hennar svör hér í dag og ég treysti því að sú vinna sem fram undan er í að koma þessu öllu saman í gott horf verði góð fyrir land og þjóð og þá sem vilja nýta sér gögn. Við búum í samfélagi í dag sem treystir mikið á gögn og nýtir gögn mikið og þau sem hafa aðgang að gögnum hafa ótvírætt forskot á þau sem ekki hafa hann þannig að það er mjög mikilvægt að aðgangur að þeim sé sem allra bestur. Ég spyr hins vegar að þessu með kyngreininguna af ástæðu vegna þess að ég hef sjálfur rekið mig á það að opinberar stofnanir hafa verið tregar til að veita slíkar upplýsingar. En ég heyri á ráðherra að það sé vilji til þess að slík gögn séu á því formi að þau ýti undir réttmætan samanburð á milli allra kynja þannig að við getum séð samfélagið með því móti og það geti stuðlað að framgangi slíkra sjónarmiða.