154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

barnaverndarlög.

629. mál
[14:27]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnaverndarlögum. Markmið frumvarpsins er að skýra reglur sem gilda um endurgreiðslur ríkissjóðs vegna barnaverndarþjónustu sem veitt er samkvæmt lögunum til tiltekins hóps barna. Annars vegar er um að ræða börn sem ekki hafa fasta búsetu á Íslandi, hins vegar eru þetta börn sem eru án forsjáraðila sinna og hafa hlotið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi hér á landi. Jafnframt er lagt til að styrkja lagastoð fyrir setningu reglugerðar um kostnað við þjónustu og endurgreiðslur ríkissjóðs vegna barnaverndarþjónustu við þessa hópa.

Virðulegi forseti. Samhliða fjölgun á komu flóttafólks til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd hefur fjölgað bæði málum barna sem fá þjónustu samkvæmt barnaverndarlögum og hafa ekki fasta búsetu hér á landi eða eru án forsjáraðila sinna með alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á Íslandi. Staða á þjónustuþörf þessa hóps barna getur verið misjöfn en mörg þeirra eru í viðkvæmri stöðu og þurfa sérhæfða barnaverndarþjónustu. Ég hef því lagt áherslu á að barnaverndarþjónustur sveitarfélaganna sem taka á móti flestum þessara barna hafi tækifæri til að byggja upp sérþekkingu á þjónustu við þennan hóp.

Í gildandi barnaverndarlögum er kveðið á um að ríkissjóður greiði útlagðan kostnað barnaverndarþjónustu vegna barna sem ekki hafa fasta búsetu hér á landi. Þá skal ríkissjóður greiða allan kostnað barnaverndarþjónustu vegna ráðstöfunar barns í fóstur eða vistun vegna þeirra barna sem eru hér á landi án forsjáraðila og hafa fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi. Komið hefur í ljós að orðalag þessara reglna er ekki nægilega skýrt og styður ekki við það markmið að sérþekking byggist upp hjá barnaverndarþjónustu. Það hefur sýnt sig að tilvísun til þess að endurgreiðsla komi til vegna útlagðs kostnaðar felur í sér hvata fyrir sveitarfélög til að útvista þjónustu við þennan hóp barna í stað þess að byggja upp þjónustuna innan sinnar barnaverndarþjónustu. Þessar aðstæður eiga sér að nokkru leyti sögulegar skýringar enda hefur ákvæði 5. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga verið lítið breytt frá setningu laganna árið 2002. Á þeim tíma voru umsækjendur um alþjóðlega vernd, þar með talið fylgdarlaus börn, mun færri og ekki sömu forsendur fyrir sveitarfélög að byggja upp barnaverndarþjónustu sem tæki sérstaklega mið af stöðu þeirra. Með auknum fjölda eru þessar forsendur gjörbreyttar og mikilvægt að barnaverndarlögin endurspegli það.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að óskýrleiki í lögum trufli ekki vinnu stjórnvalda við að veita viðkvæmum hópum barna barnaverndarþjónustu. Í frumvarpi þessu eru því lagðar til afmarkaðar breytingar á barnaverndarlögum til að koma til móts við framangreinda stöðu. Markmið breytinganna er sem áður segir að skýra endurgreiðslureglur 15. gr. barnaverndarlaga. Þá er breytingunum ætlað að styrkja lagastoð reglugerðar um þjónustu og endurgreiðslu ríkissjóðs vegna kostnaðar barnaverndarþjónustu á grundvelli 5. og 6. mgr. 15. gr. barnaverndarlaga, en með slíkri reglugerð er gert ráð fyrir að betur sé hægt að tryggja jafnræði í þjónustu við þennan hóp barna milli barnaverndarþjónustu og auka skilvirkni, fyrirsjáanleika og stöðugleika þegar kemur að greiðslum úr ríkissjóði.

Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð og raunar þvert á móti.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er m.a. fjallað um að styðja verði sérstaklega við börn af erlendum uppruna í skólakerfinu og í samræmi við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna eigi Ísland að taka vel á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd sem séu í hættu og eigi rétt á að komast í skjól. Með frumvarpinu er leitast við að ná þessum markmiðum og skapa stjórnvöldum forsendur til að veita góða barnaverndarþjónustu.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar Alþingis.