154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

barnaverndarlög.

629. mál
[14:33]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það er erfitt að vera ósammála hv. þingmanni um þetta vegna þess að ég held að þegar við horfum á þær miklu breytingar sem hafa orðið tiltölulega hratt á íslensku samfélagi þegar kemur að samsetningu þjóðarinnar með auknu hlutfalli fólks með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn þá er það sannarlega svo að við erum ekki að gera nóg fyrir börn með þennan bakgrunn. Það á bæði við fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur og það alvarlega er kannski að við sjáum allt of lítinn mun þegar kemur t.d. að niðurstöðum úr PISA á milli þeirra sem eru fyrstu og annarrar kynslóðar. Við sjáum niðurstöður PISA. Við sjáum fleiri þætti, þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi. Við sjáum að við erum ekki að ná nægilega vel til þessa hóps.

Þegar við síðan ræðum hvernig við getum tekið þetta föstum tökum þá er auðvitað víða í kringum landið í skólum og sveitarfélögum verið að vinna frábæra hluti. En það sem ég held að við þurfum að gera í stórauknum mæli er að samhæfa þetta og taka þetta meira á miðlægum grunni þegar kemur að þjónustu við börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Þá er ekki verið að segja að sveitarfélögin og skólarnir eigi ekki að vera þeir sem þjónusta þennan hóp heldur að tækin og tólin, aðferðirnar sem við höfum til að aðstoða þá sem eru að vinna með börnum með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn, verði stórefld. Það er hugsunin með nýrri skólaþjónustustofnun sem er verið að setja af stað núna. Það er vinna í gangi og samtal á milli sveitarfélaganna um hvernig við eflum síðan með nýrri skólaþjónustulöggjöf þjónustu við þennan hóp sérstaklega. Við erum með fjölda aðgerða í gangi, m.a. nýlega skrifuðum við undir við Háskólann um sérstakt stöðumat í íslensku fyrir börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn sem sannarlega þarf inn í skólakerfið. Það er spretthópur núna í gangi um námsgögn sem á að skila af sér þar sem við höfum verið að auka námsgagnaútgáfu til barna af erlendum uppruna þannig að það eru víða aðgerðir í gangi sem miða að því að samhæfa og efla þjónustu við þennan hóp inni í menntakerfinu. (Forseti hringir.) En ég er algerlega sammála, betur má ef duga skal og ríki og sveitarfélög verða að setja aukna fjármuni í þennan málaflokk á næstu árum vegna þess að annars mun ekki vel fara.