154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna.

13. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):

Virðulegi forseti. Slagorð eins og Mennt er máttur og Fjárfestum í framtíðinni heyrast oft þegar talað er um mikilvægi þess að ungt fólk mennti sig. Mikilvægið og þessi fögru slagorð virðist hins vegar auðveldlega gleymast þegar kemur að því að gera hinum almenna námsmanni kleift að stunda nám. Embætti umboðsmanns skuldara miðar við að lágmarksframfærsla einstaklings án húsaleigu sé 214.815 kr. á mánuði. Til samanburðar gerir Menntasjóður ráð fyrir því að námsmenn geti lifað á aðeins 137.100 kr. á mánuði. Ekki batnar það þegar húsnæðisliðurinn er tekinn inn. Miðað við fullt nám fær námsmaður í leiguhúsnæði 97.853 kr. aukalega á mánuði fyrir húsnæðislán. Það dugar hins vegar engan veginn fyrir húsnæðiskostnaði, jafnvel þegar þú ert eitt af þeim heppnu sem fá inn á stúdentagörðum en þar kosta einstaklingsíbúðir 115.000–141.000 á mánuði, hvað þá ef viðkomandi nemandi þarf að leita á hinn almenna leigumarkað. Þetta þýðir að flestir nemendur þurfa að vinna með námi.

Mikilvægt er að átta sig á því að allar tölur hér að ofan miðast við níu mánuði á ári og því er reiknað með að nemendur vinni á sumrin. Ef þau vinna á kassa í Bónus eru meðallaun þeirra 567.000 á mánuði samkvæmt kjarakönnun VR frá því í febrúar 2023. Slík laun í þrjá mánuði eru hins vegar 79.000 kr. hærri en það frítekjumark sem Menntasjóður skilgreinir sem viðmið fyrir þetta ár. Það þýðir að 45% af þessum 79.000 kr., eða 3.950 kr., dragast frá framfærsluláninu á hverjum mánuði hina níu mánuði. Það þýðir einnig að 45% af öllum tekjum sem nemendur afla sér á veturna leiða af sér jafn háa upphæð í frádrátt af framfærsluláninu. Gefum okkur að nemandi vinni 50% starf á kassa með náminu yfir veturinn og fái þar með 283.500 í laun fyrir skatt á mánuði. Þar með skerðist framfærslulánið hans um 131.524 kr. á mánuði sem þýðir að nemandinn situr uppi með framfærslulán upp á 18.382 kr. á mánuði — 18.000 kr. Það er öllum ljóst að þetta kerfi gengur ekki upp ef markmiðið er að nemendur geti einbeitt sér að námi eða lifað mannsæmandi lífi. Þá er vert að nefna að þó að atvinnuleysi sé lítið í augnablikinu á Íslandi og atvinnutækifæri námsmanna mikil þá getur slíkt breyst hratt. Í dag ávinna nemendur sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta þrátt fyrir að þeir borgi í Atvinnuleysistryggingasjóð.

Við þurfum að auka hlutfall styrkja í kerfinu jafnt og þétt og draga úr því að fólk sitji uppi með lán sem borga þarf af í áratugi. Einhver skynsamlegasta fjárfesting sem stjórnvöld geta ráðist í er að stytta skuldahalann sem stúdentar taka með sér út í lífið að námi loknu. Það væri alvörufjárfesting í fólki og framtíðinni.

Við þurfum líka að gera stúdentum kleift að koma undir sig fótunum, kaupa sína fyrstu íbúð og fara erlendis í frekara nám þrátt fyrir að hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að fara í háskóla eða annað framhaldsnám. Þetta viðhorf, að stúdentar þurfi að þjást með námi, að stúdentar þurfi að vinna fullt starf á sumrin þannig að þau geti sloppið með að vinna bara smávegis með fullu námi á veturna, er skammsýnt viðhorf. Stúdentar eiga að hafa svigrúm til þess að geta einbeitt sér að náminu og tekið þátt í háskólasamfélaginu. Háskólanám er nefnilega ekki bara bókalestur og verkefnaskil, það er samfélag sem á sér fáa líka. Að verja tíma með fólki með mismunandi áhugasvið úr mismunandi deildum háskólanna og kasta á milli sín hugmyndum er ávísun á frjóa hugsun og nýsköpun sem mörg af stærstu fyrirtækjum landsins hafa sprottið upp úr. Það eru því ekki bara stúdentarnir sem fara á mis við margt ef þeir geta ekki tekið þátt í háskólasamfélaginu heldur Ísland allt.

Virðulegi forseti. Við sem að þessu frumvarpi stöndum erum hv. þingmenn úr Pírötum og Flokki fólksins og eins og virðulegur forseti nefndi áðan er um nokkur mismunandi lög að ræða sem verið er að gera breytingar á. Þetta er því einhvers konar menntabandormur, ef við notum það hugtak, og mig langar að fara í gegnum helstu greinar frumvarpsins og skýra þær.

Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar um fæðingarstyrk en samkvæmt núverandi lögum þá á námsfólk ekki rétt á fæðingarorlofi heldur er úthlutað sérstökum fæðingarstyrk. Lagt er til að hækka fæðingarstyrk námsmanna en hann dugar ekki til framfærslu í núverandi mynd. Ef tekið er dæmi um einstætt foreldri með einn nýbura, búsett á höfuðborgarsvæðinu án bifreiðar, eru mánaðarleg heildarútgjöld án húsnæðis 236.808 kr. Leiguverð í dag fyrir tveggja til þriggja herbergja íbúð er í kringum 200.000–300.000 kr. á mánuði. Mánaðarlegur fæðingarstyrkur foreldris í fullu námi er í dag rúmar 220.000 kr. Það er augljóst að dæmið gengur ekki upp. Því er lagt til að fæðingarstyrkur skuli nema grunnatvinnuleysisbótum en í frumvarpi þessu er einmitt lagt til að það sé sú upphæð sem notuð er þegar skilgreint er framfærsluviðmið námsmanna.

Annar kafli frumvarpsins fjallar um námsmenn og atvinnuleysistryggingar en í kjölfar hrunsins voru gerðar breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu, með lögum nr. 134/2009, á þann veg að námsfólk átti ekki lengur rétt á atvinnuleysistryggingum í námshléum. Þrátt fyrir það greiðir námsfólk enn atvinnutryggingagjald í Atvinnuleysistryggingasjóð af launum sínum. Því er ekkert kerfi sem grípur námsfólk sem fær t.d. ekki sumarvinnu og ekki eru greidd námslán yfir sumartímann nema fólk sé í sumarnámi. Afkoma þess er því ótrygg og getur valdið brottfalli úr námi. Markmið þessa frumvarps er að koma lögunum í sama horf og var fyrir hrun.

Þriðji kafli frumvarpsins fjallar um námslán. Stúdentar hafa ítrekað kallað eftir hærri framfærslulánum þar sem núverandi fjárhæðir hrökkva hvorki fyrir húsnæðis- né framfærslukostnaði. Grunnframfærslukostnaður námsmanns í eigin húsnæði eða á leigumarkaði er samkvæmt Menntasjóði námsmanna 149.905 kr. á mánuði ef aðeins er miðað við skólaárið. Ef heildarfjárhæð námslána er dreift yfir almanaksárið, þ.m.t. námshlé, er fjárhæðin 112.430 kr. á mánuði. Heildarútgjöld bíllauss einstaklings án húsnæðisliðar eru 167.096 kr. á mánuði. Leiga fyrir einstaklingsherbergi á stúdentagörðum er í kringum 118.000 á mánuði. Staðan er því þannig nú að stúdentar geta ekki framfleytt sér án þess að vinna með námi með tilheyrandi álagi og auknum líkum á brottfalli úr námi. Þessi staða er óásættanleg, sérstaklega þegar haft er í huga að um er að ræða lán en ekki styrk. Því er lagt til að grunnframfærsla námsmanna skuli taka mið af grunnatvinnuleysisbótum fyrir fullt nám. Fjárhæðin skerðist síðan í samræmi við lækkað námshlutfall.

Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um að lágmarkseiningafjöldi til að fá lánsrétt lækki úr 44 einingum á ári í 24 einingar. Sumar námsleiðir eru þannig uppbyggðar að fall í aðeins einum áfanga getur valdið því að nemandi hafi ekki lengur rétt til neinna námslána, ekki einu sinni að hluta. Þetta fyrirkomulag skapar kvíða hjá nemendum, einkum í prófatöku. Ástæða þess að miðað er við 24 einingar, þ.e. 12 einingar á önn, í þessu frumvarpi er að námsfólk fær ekki atvinnuleysisbætur stundi það nám sem nemur 12 einingum eða fleiri á önn og í núgildandi lögum er lágmarkskrafan til lánsréttar miðuð við 22 einingar. Það er því ekkert opinbert kerfi sem grípur námsfólk sem stundar nám og lýkur einingum á þessu einingabili. Betur færi ef þessi kerfi spiluðu saman. Að mati flutningsmanna eru þessi skilyrði óþarflega ströng og réttara að miða við 24 eininga námsframvindu á ári eða 12 einingar á önn. Fjárhæð grunnframfærslu myndi skerðast hlutfallslega miðað við námshlutfall líkt og verið hefur.

Þá er mælt fyrir þeirri nýjung í 6. gr. frumvarpsins að norskri fyrirmynd að hægt sé að fá greitt út fullt námslán þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði um lágmarksnámsframvindu. Sem dæmi má nefna að ef námsmaður skráir sig í 30 eininga nám á einni önn og lýkur aðeins 20 getur hann eftir sem áður fengið námslán miðað við 30 einingar. Þær 10 einingar sem út af standa yrðu þá skráðar. Þessi heimild takmarkast við 60 útafstandandi einingar að hámarki. Með þessari breytingu yrði enn hvati í kerfinu til að ljúka námi á réttum tíma því annars fær námsmaðurinn ekki afskrifaðan hluta lána sinna. Það er því ekki ástæða til að ætla að fólk nýti sér slíka heimild nema nauðsyn krefji.

Að lokum er lagt til að hækka styrkhlutfall lána úr 30% í 40% að gefnum þeim skilyrðum sem lögin setja. Í Noregi er námsstyrkur veittur í formi 25% niðurfellingar á höfuðstóli láns í lok hverrar annar í hlutfalli við fjölda þreyttra eininga til viðbótar við 15% niðurfellingu við námslok. Markmiðið með breytingunni er að með þeim hætti færist kjör íslenskra námsmanna nær því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þessa er áætlaður um 1,2 milljarðar kr.

Í frumvarpinu er einnig bráðabirgðaákvæði um ógreitt starfsnám en á undanförnum árum hefur ýmiss konar starfsnám háskólanema aukist. Margt af því námi er ólaunað og það sem verra er, regluverki um slíkt starfsnám er verulega ábótavant. Sett hefur verið ítarleg reglugerð um vinnustaðanám á framhaldsskólastigi, nr. 180/2021, en sams konar reglur er ekki að finna um starfsnám á háskólastigi. Nauðsynlegt er að ráðherra bregðist við og setji skýrt regluverk um slíkt starfsnám til að tryggja réttindi stúdenta.

Virðulegi forseti. Að lokinni 1. umræðu um þetta mál legg ég til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og er það einskær von mín að málið fái einhverja umfjöllun þar.

Virðulegi forseti. Tímarnir hafa breyst, aðstæður hafa breyst, námskráin hefur breyst og framtíðin krefst breytinga. Menntasjóðskerfið þarf að breytast með.