154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

618. mál
[16:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að taka heils hugar undir að þetta er frábært frumvarp og flott að það sé búið að koma þessu í gegn. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá þær breytingar sem var beðið um og hafa náð inn í þetta mál, sérstaklega það sem varðar greiðslustuðning til þeirra sem verst hafa það og líka þeirra sem eru einir og standa oftar höllum fæti.

Það er annað sem mig langar líka að ítreka núna fyrst þetta er komið af stað: Við verðum að láta fólk vita að þessi stuðningur sé til staðar, við verðum að tryggja að það fólk sem er í sumarbústað eða hjólhýsum eða atvinnuhúsnæði fái húsnæði. Ég hvet fólk sem hefur laust húsnæði þarna úti að reyna endilega að skrá það vegna þess að það er fólk sem þarf nauðsynlega húsnæði, þarf að komast úr hjólhýsinu, þarf að komast úr atvinnuhúsnæðinu til að fá leigt almennilegt húsnæði og fá eitthvert öryggi. Við erum að tryggja það með þessu og ég vona svo heitt og innilega að það verði hægt að sjá til þess að þeir sem þurfa á því að halda fái húsnæði og tryggja það að þeir geti leitað til þeirra sem eru að aðstoða með að fá húsnæði og að þeir fái skjóta afgreiðslu. Ég ítreka: Þið sem eruð með laust húsnæði, endilega bjóðið það fram.