154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[12:53]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær skýrslur sem verið er að kynna hér og sýna vel fram á hversu mikilvægt og einstakt norrænt samstarf er. Það er skoðun mín, og tek ég þar undir skoðun þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað, að það mætti vera enn þá nánara og jafnvel enn formlegra en það er í dag.

Forseti. Fyrir nokkru sótti ég málstofu á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands um stöðu Norðurlandanna á þessum nýju tímum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Var áhugavert að heyra finnskan sérfræðing sem talaði á þeirri málstofu tala um að þrátt fyrir endalausar tilraunir þeirra og annarra ríkja til að vinna með Rússum á sviði efnahagsmála, umhverfismála, fræða og vísinda og jafnvel varnarmála hefði allt komið fyrir ekki, þeir notuðu tímann til að vígvæðast. Öll samvinnan var til einskis. Að sama skapi var áhugavert að heyra Svíann lýsa algerum umsnúningi þar í landi frá áherslu á það sem er kallað „common security“, nefnilega að reyna að vinna með öllum til að halda friðinn, að einhverju leyti mætti kalla það eins konar alþjóðlega meðvirkni, yfir í „deterrence“ eða hernaðarlega fælingu þar sem stærsta skrefið er vitaskuld formleg innganga í NATO. Svíinn talaði líka um hin stóru skref sem þegar hefðu verið stigin í formlegu varnarsamstarfi Norðurlandanna, t.d. að hinar 250 orrustuþotur sem hann sagði Norðurlöndin eiga vinni nú saman sem ein sveit. Til samanburðar má geta þess að Bretar eiga 130 þotur en þeir eru, ásamt Hollendingum og Eystrasaltsríkjunum, nánustu samstarfsaðilar Norðurlandanna innan Evrópuhóps NATO undir JEF-samstarfinu eða „joint expeditionary force“ eins og það er kallað á ensku, með leyfi forseta. Rússar eiga reyndar um 1.500 orrustuþotur þannig að varnarsamstarfið við Bandaríkin er áfram algert lykilatriði þegar kemur að vörnum okkar heimshluta.

Norðurlöndin eru sérstakur ríkjahópur og það hefur komið vel fram hér í þessari umræðu. Svíar, Danir og Norðmenn tala í grunninn sama tungumálið og eru því nánari en hin tvö en engu að síður eru tengsl bæði okkar Íslendinga og Finna nánari við hin Norðurlöndin en nokkur önnur ríki. Þaðan sprettur menning okkar og samfélagsgerð sem er þegar allt kemur til alls ein sú allra besta í heimi hér, ef ekki sú besta. Hún er alla vega í flokki með því best heppnaða í engilsaxneskum löndunum og þeim norður-evrópsku eins og Hollandi og Lúxemborg. Norðurlöndin vinna þétt saman að ýmsum málefnum á alþjóðlegum vettvangi, eins og framsögumaður þessarar skýrslu, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, lýsti vel, en hafa þó búið við þær áskoranir að hafa ekki gengið í takt í stórum málaflokkum. Aðildin að Evrópusambandinu er einn þeirra, varnarmálin annar.

Noregur, Ísland og Danmörk voru stofnaðilar að NATO og traustir bandamenn Bandaríkjanna í kalda stríðinu. Svíþjóð og Finnland voru hlutlaus, þ.e. utan NATO. Svíar litu lengi á það sem sitt hlutverk að gagnrýna Bandaríkin á alþjóðavettvangi en eru nú komnir í varnarsamstarf við þá. Finnar gættu þess vandlega að styggja ekki Sovétmenn og Rússa en nú er þetta allt saman fyrir bí. Þó að Svíþjóð sé ekki formlega gengið í bandalagið er það bara tímaspursmál og má segja að landið sé þegar komið inn fyrir varnarlínu NATO með yfirlýsingum helstu NATO-ríkja um samstöðu með þeim ef á það er ráðist. Finnar eru auðvitað orðnir formlegir aðilar eins og við þekkjum.

Frú forseti. Þegar ég var í Kabúl að vinna fyrir NATO árið 2018 voru þar bæði finnskir og sænskir hermenn innan um NATO-herina. Þótt vissulega væri blæbrigðamunur á verkefnum þeirra varð þó ljóst að þetta voru herir í sama liði. Þannig er varlegt að álykta að NATO-aðild Finna og vænt aðild Svía hafi komið til í einu vetfangi með Úkraínustríðinu. Þetta hefur verið að gerast smám saman en stóru vatnaskilin urðu auðvitað í febrúar í hittiðfyrra. Það er þó líklegt að þetta þýði nánara samstarf Norðurlandanna þar sem nú er enginn munur á því í hvaða átt þau stefna á sviði alþjóðlegra varnarmála. Það gæti því verið klókt fyrir okkur Íslendinga að prjóna okkur rækilega inn í þau samstarfsverkefni sem þar eru að fara af stað. Við erum þó auðvitað í annarri stöðu en hin Norðurlöndin að því leyti að við erum ekki með her. Við eigum enga af þessum 250 orrustuþotum sem Svíinn á málþinginu talaði um en við erum með landhelgisgæslu, stórt hafsvæði og stóra lofthelgi og liggjum á hernaðarlega mikilvægum stað í miðju Norður-Atlantshafi. Vinnum með styrkleika okkar og það sem við eigum.

Það er aukinn ótti, frú forseti, meðal sérfræðinga við að ófarir Rússa hingað til í Úkraínu kunni að koma fram í ógnandi hegðun þeirra á norðurslóðum, að þeir muni vilja sýna fram á að þeir séu nú engu að síður stórveldi sem þurfi að taka mark á. Norðurslóðir eru hafsvæði sem Norðurlöndin liggja að. Þess vegna er líklegt að ábyrgð Norðurlandanna á því að mæta tilburðum Rússa verði töluverð en við vonum auðvitað að það leiði ekki til átaka. Þar er ábyrgð okkar Íslendinga sem strandþjóðar í miðju Norður-Atlantshafinu allnokkur og hana þurfum við að taka alvarlega. Við höldum, eins og áður segir, ekki úti hefðbundnum herafla undir vopnum en erum engu að síður með stofnanir sem sinna mikilvægu öryggishlutverki, hlutverki sem bandalagsþjóðir okkar þyrftu ella að taka að sér með tilheyrandi kostnaði fyrir þær. Þar er Landhelgisgæslan fremst á meðal jafningja. Getum við hér á Alþingi Íslendinga, frú forseti, ekki tekið höndum saman um að efla hana enn frekar?

Ég vil á ný þakka fyrir þessa umræðu og þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir þeirra góðu störf í þágu Norðurlandasamstarfsins.