154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka þessa umræðu og taka undir með þeim sem hafa nefnt að við ræðum alþjóðamálin ekki nógu oft hér í sal, kannski sérstaklega viðvarandi norrænt samstarf sem er þéttast ofið því sem við gerum dagsdaglega, hefur mögulega svona beinustu skírskotunina í störf þingsins, þannig að það hefur verið góð umræða.

Mig langar að fá að snerta á tveimur efnisatriðum sem hafa verið í umræðunni. Í fyrsta lagi heyrði ég hjá mörgum þingmönnum þá ábendingu um að norrænu ríkin búi nú að þeirri góðu friðsamlegu sögu að hafa ekki farið í stríð hvert við annað í tvær aldir. Það er náttúrlega einstakur grunnur til að byggja samstarf á, en við megum samt ekki horfa fram hjá annarri sögu sem á sér stað á sama svæði sem er nýlendustefna innan ríkja sem eru í Norðurlandaráði. Bæði forsagan, við höfum fengið á síðustu misserum t.d. sögur af svokölluðu lykkjumáli í Grænlandi þar sem í ljós kom að ekkert í einhverri fornöld heldur í kringum 1970 hafi dönsk stjórnvöld komið fyrir getnaðarvarnalykkjum í þúsundum grænlenskra stúlkna til að koma í veg fyrir að grænlenska þjóðin fjölgaði sér. Svona gerir fólk ekki. Dönsk stjórnvöld eru góðu heilli farin að koma betur fram við Grænlendinga en sennilega ekki nógu vel og þess vegna fagna ég því sem ég heyri hérna hjá fulltrúum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, að fulltrúar Íslands á þessum fundum standi alltaf með Grænlandi þegar kemur að því að ræða sjálfstæða aðild eða að hífa Grænland upp innan þessa vettvangs. Þar eigum við að vera. Við eigum að standa með Grænlandi sem sjálfstæðri þjóð eða því sem Grænlendingar vilja, sem þjóð á meðal þjóða, ef það er það sem þeir kalla eftir.

Annað sem við getum líka litið til er staða Sama, sérstaklega í Norður-Noregi, frumbyggjaþjóð sem nýtur ekki sannmælis gagnvart norskum stjórnvöldum sem sést t.d. í því hvernig þau koma fram við Sama í tengslum við framkvæmdir við vindorkugarð í Norður-Noregi þar sem norska ríkið veitir heimild til að reisa vindmyllur á lendum hreindýrasmala. Samarnir mótmæla en norsk stjórnvöld leyfa þetta engu að síður. Þetta fer síðan fyrir hæstarétt þar sem norska ríkið er rassskellt og það segir bara: Afsakið — og heldur þessu áfram og þar við situr. Þetta er nýlendustefna, ekki úr fortíðinni heldur í dag. Það stoðar lítið að guma sig af því að hafa búið við frið í 200 ár ef við búum ekki öll við frið á þessu svæði og staðan er einfaldlega sú að undirokaðir hópar á Norðurlöndunum, í krafti nýlendustefna hinna sterkari, búa ekki við sama frið og restin. Þannig að þetta er eitthvað sem er full ástæða til að ræða í tengslum við norrænt samstarf.

Þá langar mig þessu tengt að nefna hugmyndina um Norðurlöndin og norðurskautssvæðið sem lágspennusvæði, sem er auðvitað mjög mikilvægt markmið en markmið sem við megum spyrja okkur hvort við séum í rauninni að framfylgja, hvort við séum að standa við þetta markmið dagsdaglega. Ég ætla ekkert að fara út í hugmyndir sem hafa verið nefndar um norrænan her eða hvað það er. Ég ætla bara að tala um þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað, þá hernaðarvæðingu sem við höfum séð af hálfu t.d. Íslands og Noregs. Hér á Íslandi lokaði Bandaríkjaher herstöðinni árið 2006. Nokkrum árum síðar opnaði hann hana í rauninni aftur. Í átta eða níu ár núna hefur verið hermaður í Keflavík á hverjum einasta degi og nú er staðan sú að það eru um 300 manns á herstöðinni að meðaltali á dag. Umsvifin hafa stóraukist. Það er gríðarleg uppbygging á mannvirkjum í gangi og þetta hefur allt átt sér stað án lýðræðislegrar, gagnsærrar umræðu hér í sal. Uppbyggingaráform Bandaríkjahers komu bara í ljós þegar var verið að millifæra einhverja 300 milljóna færslu í fjármálaáætlun árið 2019. Þá fór einhver að kroppa í þetta hrúður og þá bara spratt fram: Já, heyrðu, þetta er framlag íslenska ríkisins til þess að Kaninn komi með einhverjar 12 milljarða til að byggja upp hérna alls konar dót í kringum herstöðina. Þessu hefur síðan verið haldið áfram.

Kafbátaeftirlit út frá Keflavíkurvelli er viðvarandi verkefni og þar að auki bætast við alls konar verkefni eftir hendinni. Þar langar mig sérstaklega að nefna, frú forseti, þá staðreynd að B2-sprengjuflugvélar, dýrustu hertæki veraldarsögunnar, hafa endurskilgreint Keflavík og ja, af hershöfðingjum að dæma er verið að gíra upp flokkunina á stöðinni. En þessar sprengjuvélar hafa haft viðdvöl þar um nokkurra vikna skeið, gert þar út til að æfa sig og flugu m.a., sá ég nú hjá þeim sem fylgjast með ferðum þessara flugvéla, frá Íslandi yfir norðurskautið, hittu þessa félaga sína við Alaska og flugu svo aftur til að sýna að þetta lágspennusvæði, sem norðurskautið á að vera, væri innan þeirra marka. Á svipuðum tíma tóku þessar vélar sig til og lentu á herstöð í Norður-Noregi í fyrsta sinn. Þannig að þessar vélar, sem eru sérstaklega hannaðar til að komast með leynd á milli heimshluta og geta borið gríðarlegt magn af kjarnavopnum — það er þeirra tilgangur í grunninn; að komast með leynd með kjarnavopn hvert sem er í heimi — eru búnar að setja fótspor sitt á Ísland og sýna að þær geti verið hér ef til þess þarf. Þessi uppbygging á Keflavíkurvelli er það sem Bandaríkjaher eða áhugafólk um hermál í Bandaríkjunum kallar, með leyfi forseta, „base in a box“, eða hvað eigum við að kalla það, Ikea-herstöð, sem er það að hægt er að koma fyrir öllum þeim búnaði sem þarf til að sé hægt að starfrækja fullþroska herstöð með nánast engum fyrirvara. Það er sú viðvera sem er komin á Íslandi. Við þurfum að spyrja okkur hvernig þetta getur gerst án umræðu og hvort þetta sé í takt við það að viðhalda lágspennu á því svæði sem Ísland er á.

Til samanburðar var tvíhliða varnarsamningur Noregs og Bandaríkjanna uppfærður árið 2021, fimm árum eftir að íslenski samningurinn var uppfærður. Og þessi uppbygging, það er alltaf vísað í þessa uppfærslu frá 2016 sem ástæðuna fyrir því að uppbyggingin eigi sér stað. Viðaukinn við samning Íslands og Bandaríkjanna er tvær síður og var settur án nokkurrar umræðu. Þetta er skjal sem birtist bara frá ráðuneytinu. Á meðan eru Norðmenn með 100 síðna skjal sem fór fyrir þingið, það var fjallað um það í þingsal, í nefndum þingsins og svo aftur í þingsal og afgreitt þannig, töluvert meira gagnsæi. Í samningnum er þar að auki miklu meiri möguleiki fyrir stjórnvöld að hafa eftirlit með því sem á sér stað á grundvelli samningsins.

Mig langaði líka að nefna, en hef ansi lítinn tíma til þess, frú forseti, umhverfis- og loftslagsmálin sem norrænu ríkjunum eru mjög mikilvæg, sérstaklega þegar bráðnun norðurskautsíssins veldur aukinni ásókn í þær auðlindir sem eru á svæðinu. Þetta er auðvitað þróun sem við þurfum að standa gegn, þessi ásókn má ekki verða að veruleika, það má ekki opna fyrir óheftar framkvæmdir á þessu svæði. En til þess þurfa Norðurlöndin líka að fara fram með góðu fordæmi. Hér vil ég nefna Noreg sem slæmt dæmi. Einhvern veginn er algerlega taumlaust hvernig norsk stjórnvöld láta sér detta í hug að leita að olíu, það er ekki bara aukin leit innan svæða sem þegar hefur verið raskað heldur á fleiri svæðum og norðar og norðar. Þá verður (Forseti hringir.) að spyrna fótum við þeirri fáránlegu hugmynd Noregs að verða fyrsta land í heimi til að leyfa námavinnslu á hafsbotni á milli Íslands og Noregs. Hér á bara segja nei og stopp. Helst af öllu ætti Ísland að beita sér fyrir friðlýsingu norðurskautssvæðisins fyrir svona framkvæmdum.