154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vissi svo sem að við hv. þingmaður deilum áhyggjum af því að eftirlit með þessum sérstöku markmiðum fríverslunarsamninga sé ekki nógu sterkt. Við þurfum að leita einhverra leiða til að formgera það. Þetta er nú ekkert flókið. Það er hægt að leita til samtaka sem eru að berjast fyrir mannréttindum í hverju ríki fyrir sig. Íslensk eða norsk stjórnvöld gætu beitt sér í því, gætu jafnvel fengið Eftirlitsstofnun EFTA eða eitthvert apparat sem þessi lönd eiga sameiginlegt til þess að fara bara reglulega í feltið, heimsækja Tyrkland og sjá hvernig staðan er. Það verður að vera eitthvert úrræði fyrir fólk, fyrir almenning í þessum ríkjum, til að leita til okkar, leita til EFTA-ríkjanna og segja: Það er ekki allt með felldu, þið þurfið að tala við ríkisstjórnina í landinu okkar af því að hún er bara engan veginn að standa við þetta. Hún er voðalega dugleg að fella niður tolla af fiskinum ykkar en er líka ofboðslega dugleg við að berja á stjórnarandstæðingum og henda þeim í fangelsi. Eruð þið sátt við það?

Varðandi samninginn við Suður-Ameríkuríkin fjögur þá tengist það því sem hv. þingmaður nefndi hér í andsvari við hv. þm. Magnús Árna Skjöld Magnússon. Mótmæli franskra bænda snúast nefnilega ekki bara um stöðu bændastéttarinnar innan ESB heldur líka andstöðu þeirra við þennan sérstaka fríverslunarsamning. Hættan er að hann verði slæmur báðum megin, að hann verði til þess að rýra samkeppnisstöðu og kjör evrópskra bænda og verði til þess að flytja út eymd og volæði til suður-amerískra bænda. Við getum kallað þetta félagslegt undirboð eða hvað það er. Við sjáum (Forseti hringir.) kannski eftir kosningarnar til Evrópuþingsins núna í vor hver verða afdrif þessa samnings (Forseti hringir.) en ég myndi leggja til að Íslandsdeildin væri mjög vör um sig þegar kemur að þessum samningi og myndi ekki fylgja Evrópusambandinu í einu og öllu varðandi hann.