154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði bara aðeins að koma hér og tala um það hversu margir þurfa að vera í hagsmunagæslu. Það kom fram í umræðunni áðan að ef Ísland gengi í Evrópusambandið þá fengjum við kannski sex þingmenn. Í dag erum við fjögur í þessu þó að við sitjum ekki á Evrópuþinginu. (Gripið fram í.) Erum við fimm? Mig langaði að segja frá því að ég hitti um daginn evrópska pírata en píratar eiga fjóra þingmenn á Evrópuþinginu. Þrír þeirra koma frá Tékklandi og einn frá Þýskalandi og undanfarin tíu, fimmtán ár hafa verið þar þingmenn frá pírötum frá mismunandi löndum. Það var mjög athyglisvert að heyra umræðu þessara Evrópuþingmanna um það hversu mikil áhrif fjórir þingmenn gætu haft þegar þeir ynnu skipulega og vel að því að tryggja að sjónarmið þeirra, pírata, kæmu fram. Þau hafa t.d. verið mjög virk í umræðunni á Evrópuþinginu um gervigreindarlöggjöfina og þar hafa þau náð að koma mikið að persónuverndarmálum og öðru sem við Píratar leggjum mikla áherslu á. Þannig að ég held að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því, þó svo að við værum einungis með sex þingmenn, að við hefðum ekki áhrif, sér í lagi ef þessir sex þingmenn gætu unnið þétt og vel saman, sem ég held að væri lykillinn að þessu, óháð því úr hvaða flokkum þeir kæmu. Þarna væri fólk sem ynni saman fyrir hönd Íslands að okkar hagsmunum, rétt eins og við sem erum núna í EES/EFTA-nefndinni og komum þarna öðru hverju, við erum ekki með fasta setu í Brussel eða Strassborg. Ég held að það sé verulega vanmetið hversu mikil þessi áhrif geta verið.