154. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2024.

breytingar á aðalnámskrá grunnskóla.

87. mál
[19:23]
Horfa

Sigþrúður Ármann (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa tillögu til þingsályktunar. Ég var spurð að því af mætri konu um daginn: Hver er dýrmætasta gjöfin? Á meðan ég hugsaði mig um svaraði hún um hæl: Dýrmætasta gjöfin er að vera látinn læra að lesa sem barn. Það skiptir mjög miklu máli en því miður eru ekki öll börn sem fá að læra að lesa. — Þessi kona er engin önnur en frú Vigdís Finnbogadóttir.

Þegar við horfum á niðurstöður úr PISA-könnunum eru þær vissulega áhyggjuefni. Því vil ég fagna þessari þingsályktunartillögu um að við séum að hugsa í lausnum, að við séum að hugsa: Hvernig getum við bætt lestrarfærni barna á landinu? Það er líka jákvætt að Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands hafi komið sér saman um samning um stofnun rannsóknarseturs, sem hér var getið, um menntun og hugarfar. Það skiptir máli að atvinnulífið og háskólar séu að vinna saman og að svona mikilvægu máli þar sem er áhersla á menntun, færni og hugarfar í þeim tilgangi að skapa nýja þekkingu, íslensku samfélagi til hagsbóta. Ég fagna því.

Sá mikli árangur sem náðst hefur í þessu langtímaþróunar- og rannsóknarverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja, sem er byggt á aðferðafræði Hermundar Sigmundssonar sem hér var getið, hann vekur gríðarlega ánægju og það er afskaplega jákvætt að sjá að þarna sé aðferðafræði sem stuðlar að því að 98% barna í 1. bekk fái ráðið lestrarkóðann og að 83% barna í 2. bekk séu læs samkvæmt stöðumati. Eins og kom hér fram þá eru einungis 52% barna í öðrum grunnskólum læs þegar skoðað var frammistöðumat þeirra — 52% barna sem voru læs eftir 2. bekk. Það er mikið áhyggjuefni og því vil ég fagna þessari þingsályktunartillögu sem miðar að því að hugsa í lausnum fyrir börnin okkar þannig að við getum aukið lestrarhæfni allra barna á Íslandi sem er, eins og hin góða kona og merka sagði, dýrmætasta gjöfin.