154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

fjarvinnustefna.

38. mál
[11:49]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hér er í gangi og þakka flutningsmanni þessarar tillögu, hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, fyrir hana og þeim sem hér hafa tekið til máls. Ég er einn hinna heppnu sem hef getað unnið í fjarvinnu undanfarin ár, svona meira og minna. Það er auðvitað alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að það er ákaflega mikill sveigjanleiki í þessu fólginn og þetta getur verið mjög þægilegt og alls ekki endilega eitthvað takmarkandi á framleiðni eða því að skila af sér þeirri vinnu sem gert er ráð fyrir að maður sinni. Hins vegar má í sjálfu sér kannski segja að það sé fáránlegt í samfélagi dagsins í dag að stefna fólki á einhvern einn stað til að sitja eitt inni á skrifstofu fyrir framan tölvu. Það er einhvern veginn dálítið furðulegt að það sé enn þá stefnan víða.

Eins og ég segi, þetta eykur sveigjanleika í vinnunni og minnkar sóun á tíma sem fer í ferðalög. Það er að mörgu leyti furðulegt að vekja okkur öll upp, t.d. fjórum tímum áður en sólin gægist upp fyrir sjóndeildarhringinn á veturna, og stefna okkur öllum í einu, út í snjó og válynd veður, til að komast eitthvað til að setjast fyrir framan tölvuna sem við hefðum alveg eins getað gert bara við eldhúsborðið heima hjá okkur til að sinna sams konar vinnu.

Það er líka ástæða til að nefna að þetta getur verið einmanalegt og hér hefur það sjónarmið komið ágætlega fram. Ég sjálfur, sem hef verið í þessari stöðu, hef brugðist við þessum einmanaleika með því að fara út til að vinna, þ.e. út á meðal fólks, komið mér fyrir í sameiginlegu vinnurými eins og nefnt var hér áðan, reyndar ekki á vegum sveitarfélags heldur einkareknum stað þar sem fólk alls staðar að kemur saman og er að vinna og manni líður eins og maður sé á vinnustað. Við skulum ekki gleyma því að það er líka góð tilfinning að vera innan um annað fólk. Ég hef t.d. líka getað sinnt minni vinnu erlendis frá og þá hef ég gjarnan sest á kaffihús og unnið þar allan daginn. Það er reyndar svo komið þar sem ég þekki til, t.d. í Hollandi, að sum kaffihús vilja helst ekki fá svona fólk inn á staðina, sem kaupir sér einn kaffibolla og situr síðan og tekur frá borðið allan daginn.

Þetta getur líka haft skrýtin áhrif á vinnustaði, getur minnkað samskipti þeirra sem eiga að vera kollegar og flæði nýrra hugmynda. Elon Musk, sem hefur örugglega stundum verið nefndur hér eins og víða annars staðar, hefur t.d. sagt að þessi áhersla á fjarvinnu sé siðferðilega röng, kannski að einhverju leyti af því að hann langar náttúrlega sjálfan til þess að vera með fólkið sem hann er að vinna með í kringum sig en líka af því að það verður til ákveðin stéttaskipting í kringum svona fyrirkomulag sem við sáum mjög skýrt í Covid og á Covid-tímanum. Það er fólk sem mun aldrei geta unnið í fjarvinnu og þarf að mæta á einhvern stað til að sinna sinni vinnu en það er auðvitað sjaldnast til að sitja fyrir framan tölvu.

Þetta hefur líka haft mikil áhrif t.d. á líf í miðborgum. Við sáum það á Covid-tímanum að það bara slokknuðu ljósin í miðborgum stóru borganna og sumar hafa ekki náð sér alveg að fullu enn þá, t.d. San Fransisco sem er enn að glíma við afleiðingar Covid-tímans sem eru að fólk er ekki að koma aftur í miðbæinn til að vinna.

Ég held að það væri mikilvægt að gera tiltölulega hlutlausa úttekt á þessu og móta stefnu í framhaldinu. En við höfum auðvitað séð að stjórnvöld á Íslandi hafa verið að feta sig inn á þessa braut. Háskóla- og iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur verið að auglýsa störf án staðsetningar og lýst því yfir að í framtíðinni verði öll störf auglýst án staðsetningar þegar kemur að því ráðuneyti.

Þetta er gott mál og getur auðvitað, eins og komið hefur fram, líka leitt til þess að fólk getur búið víðs vegar á landsbyggðunum og unnið sína vinnu við stofnanir sem að öllu jöfnu væru staðsettar hér í Reykjavík. Það gerir kannski minni kröfur til þess að ríkisvaldið fari í vinnu við að flytja stofnanir út á land þar sem það skiptir í raun kannsi ekki öllu máli hvar þær eru staðsettar eða hvar höfuðstöðvar þeirra eru upp á það að starfsfólkið geti búið áfram víða um land. Við sjáum það líka bara hér í störfum þingsins að þetta hefur haft áhrif. Þeir nefndarfundir sem ég hef setið hér, það er ekki óvenjulegt að einhverjir nefndarmenn séu á skjánum á veggnum og eru þá staðsettir einhvers staðar annars staðar en hér í höfuðborginni. Þetta er veruleiki dagsins í dag, þetta eru nýir tímar og það er fjöldi tækifæra sem tengist þessu. Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur þau en vera algerlega meðvituð um skuggahliðarnar á þessu og vinna þá markvisst í því að vinna gegn þeim á þann hátt sem mögulegt er.