154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

aðgerðir til að viðhalda grunninnviðum á Suðurnesjum.

[15:45]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem var af svipuðum meiði og fyrri umræða í síðustu fyrirspurn. Ég tek undir og ítreka þakkir til einmitt samfélagsins og aðdáunarvert hvernig það tókst á við þetta á jákvæðan og skynsamlegan og samheldinn hátt og í raun eina leiðin til að takast á við svona. En það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ekki alveg nýtt. Þegar eldgos hófst fyrst þá prófuðum við og settum af stað vinnu við að búa til varnargarða. Í kjölfarið var okkur öllum ljóst að við værum að fara að horfa á einhverja stærri tímalínu og þess vegna var að frumkvæði forsætisráðherra sett á laggirnar samráðsteymi, m.a. um afhendingaröryggi orku og vatns á Reykjanesskaga. Í teyminu voru auðvitað líka fulltrúar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og innviðaráðuneyti og í teyminu störfuðu einnig sérfræðingar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og frá Verkís. Þessi vinna kláraðist að mestu leyti á fyrri hluta ársins 2023 og við höfum síðan verið að vinna á grunni þessa og tekið ákvarðanir um þetta. Greining þessa hóps var kynnt fyrir ríkisstjórn. Hún sýndi þá að fjölmargar aðgerðir voru í gangi hjá öllum aðilum sem styrkja innviði í rekstri og í vá. Ýmsar hugmyndir komu fram um flýtingu eða frekari styrkingu núverandi aðgerða og nýjar aðgerðir sem falla undir ábyrgðarsvið stjórnvalda, sveitarfélaga eða fyrirtækja vegna þess að þetta er heil keðja, þetta eru fjölmargir aðilar. Varnargarðarnir eru gott dæmi um þetta, hvernig slík ákvörðun er tekin, vegna þess að vísindamennirnir og allt kerfið okkar þar á bak við er búið að velta vöngum yfir þessari áhættu, hvort það sé hægt að koma einhvers staðar í veg fyrir hana og svo kemur verkfræðin inn og fyrirtækin. Það kemur tillaga frá almannavörnum til dómsmálaráðherra í þessu tilviki sem kemur með þá tillögu inn í ríkisstjórn og þá verður pólitísk samstaða um að taka þá ákvörðun að byggja varnargarða. Þeir eru gerðir með þessum hætti vegna þess að sérfræðingar eru búnir að liggja yfir því í langan tíma og telja að þetta hafi verið gáfulegasta leiðin.