154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[16:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég nálgast mál almennt þannig að líta til þess hvernig önnur lönd gera hlutina. Mér finnst það ágæt leið til að máta það sem við erum að gera hér. Það getur vel verið að hv. þingmaður geri það almennt ekki en það er þá bara ólík sýn á það hvernig við nálgumst verkefni fyrir samfélagið. Ég lít almennt til þess og vil að við berum okkur saman við þau lönd sem við almennt berum okkur saman við og viljum bera okkur saman við. Mér finnst heldur ekkert óþægilegt að standa hér og segja að ég sé ósammála hv. þingmanni í skattapólitík vegna þess að ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að við séum með nægilega háa skatta á Íslandi og að verkefnið, hvort sem það snýr að verðbólgumarkmiðum, stýrivaxtalækkun eða því hvernig við ætlum að standa undir verkefnum fyrir komandi kynslóðir, sé einfaldlega að horfa á ríkissjóð með ábyrgari hætti en við gerum nú.