154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ríki eru eins og einstaklingar, dæmd af því sem þau gera. Eins og staðan er í dag hafa íslensk stjórnvöld, þar til bærir aðilar, veitt landvist og loforð um skjól fólki sem býr við stöðuga lífsógn á Gaza þar sem stórtækustu ofbeldisaðgerðir í langan aldur hafa átt sér stað undanfarna mánuði. Þar af eru fjöldamörg börn. Nokkur þeirra barna sem upphaflega fengu þetta skjól hafa þegar látið lífið í sprengjuregninu sem hefur lagt Gaza-svæðið í rúst. Þessi börn búa við hungur, þau búa við ótta, þau búa við hörmungar sem við hér á þessu friðsæla landi getum varla ímyndað okkur. Þess vegna var það lágmarksviðbragð hjá okkur sem ríki að veita þessum börnum skjól þar sem strangar innflytjendareglur okkar heimiluðu það í nafni fjölskyldusameiningar. Þau eiga að fá að sameinast sínu fólki sem hefur búið hér á landi að undanförnu og fengið hér skjól. Við höfum hins vegar ekki klárað málið. Það er ekki auðvelt fyrir þetta fólk að komast hjálparlaust frá Gaza og útilokað fyrir börn. Þess vegna er loforð okkar um skjól ómarktækt nema því fylgi stuðningur til að koma þessu fólki út og til Íslands. Sjálfboðaliðar hafa sýnt að það er hægt og komið tveimur fjölskyldum út af Gaza og fleiri eru í pípunum. Á sama tíma hafa starfsmenn utanríkisráðuneytisins verið á staðnum í rúma viku og ekkert hefur frést af þeirra verkum, a.m.k. ekki til okkar hér. Til skamms tíma kvörtuðu íslensku sjálfboðaliðarnir yfir því að ekki væri hægt að ná sambandi við þá. Við hér á Alþingi hljótum að vilja fara að sjá þau ná árangri í þessu mikilvæga verkefni. Orðspor okkar sem marktækt ríki er undir, kannski ekki í alþjóðastofnunum eða hjá nágrannaríkjunum sem sum hver virðast ekki vera að gera mikið til að hjálpa fólki á Gaza, heldur hjá því fólki sem við höfum veitt vonir um skjól og aðstandendum þeirra.