154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjölskyldusameining fyrir Palestínumenn frá Gaza og afstaða Ísraels til tveggja ríkja lausnar.

[10:55]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka svörin og minni á seinni spurningu mína fyrir seinna andsvar ráðherrans. Við erum búin, íslensk yfirvöld, að veita þessu fólki dvalarleyfi og ég lít svo á að það sé siðferðileg skylda okkar að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná þeim út af Gaza. Af einhverjum ástæðum sem ég þekki ekki hefur almennum borgurum tekist að koma fólki yfir landamærin og alla leið til Íslands. Þetta snýst um það að við nýtum afl okkar í utanríkisþjónustunni til þess að gera þetta og að það verði lagður í þetta sá pólitíski vilji og þeir fjármunir og það mannafl sem þarf til að ná þeim út. Í dag eru næstum allir íbúar Gaza-svæðisins samankomnir á litlum bletti. Þau eru eins og dýr í búri, hæstv. forseti. Þau hafa enga leið til að flýja og það er verið að hóta allsherjarinnrás.