154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[20:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta mun vera eina greinin þar sem þingflokkur Pírata situr hjá en hún snýr að fjármögnun og umsýslu eigna. Hér er verið að leggja til að ráðherra geti ákveðið að ráðstafa fjármunum úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands til eignarhaldsfélagsins sem á að fara með þessar eignir upp að allt að 15 milljörðum. Við vitum að þetta mun veikja viðnámsþrótt þessarar stofnunar en það kemur fram í umsögn stofnunarinnar. Við vitum að þetta mun auka kostnaðinn við endurtryggingar og að það er ekkert fast í hendi um hvernig verður komið til móts við félagið annað en vissulega jákvæð orð í nefndaráliti en ekkert í lagatexta. Mér finnst það bagalegt sér í lagi vegna þess að félagið þarf nú þegar að taka á sig a.m.k. 10 milljarða til að greiða upp tjón sem þegar hefur orðið. Það hefur 60 milljarða í eigið fé og þetta gæti leitt til þess að a.m.k. helmingurinn af því þurrkist upp án þess að það sé neitt fast í hendi um hvað tekur við. Ég vona auðvitað að (Forseti hringir.) hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki strax til við að breyta lögum svo að styrkja megi rekstrargrundvöll þessa mikilvæga sjóðs. (Forseti hringir.) En eftir sem áður sitjum við hjá í atkvæðagreiðslu um þessa grein.