154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir (V):

Frú forseti. Þetta er rosalega einfalt, við bara bönnum það sem er hættulegt og leyfum það sem er öruggt. Störf alþingismanna væru mjög auðveld ef þetta væri raunin. En ef bannstefnan virkar, hvers vegna deyja margir tugir einstaklinga á ári fyrir aldur fram vegna vímuefnaneyslu? Þvert á móti hef ég hitt marga notendur vímuefna sem óttast að leita sér aðstoðar einmitt vegna þess að neysla er bönnuð. Bannstefna veldur meiri skaða en bótum. Frelsismál hafa lengi verið álitin síðri viðfangsefni stjórnmálamanna, gæluverkefni ungliðahreyfinga og mál sem tefja fyrir afgreiðslu svokölluðu stóru málanna. Í mínum huga er frelsi ekki bara undirstaða samfélags okkar, það er líka skaðaminnkandi og einfaldar líf fólks. En til að ýta undir frelsi þá þurfum við að byggja traust á milli þings og þjóðar. Það er ekki bara gert með því að þjóðin byrji að treysta hv. þingmönnum heldur verða hv. þingmenn að byrja að treysta þjóðinni. Þeir þurfa að geta treyst fólki til að taka ákvarðanir um eigið líf og til að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum. Aukin forræðishyggja er til þess fallin að veikja traustið. Það eru almannahagsmunir fólgnir í því að setja frelsið á dagskrá. Spyrjum ekki að leikslokum, hvers vegna frelsið varð afgangs og furðum okkur á því hvers vegna flokkar sem kenna sig við frelsið taki það ekki upp. Við þurfum einfaldlega að þora. Þess vegna hyggst ég ásamt öðrum hv. þingmönnum Viðreisnar leggja fram frumvarp fyrir þingið í þessari viku sem snýr að lögleiðingu dánaraðstoðar. Það mál hefur verið rætt í þinginu síðustu árin, mest áberandi af hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Bryndísi Haraldsdóttur, en það er kominn tími til að ganga í verkið og ræða af alvöru um þetta mikilvæga frelsismál sem er jafnframt mannúðarmál.