154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[15:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hér er stjórnarfrumvarp á ferðinni sem er búið að samþykkja í ríkisstjórn og þá vonandi í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þannig að það er stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu en ég get ekki annað séð — ég er farinn að efast um það sé stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu vegna þess að hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gerði almennan fyrirvara við þetta frumvarp. Ég bara spyr hv. þingmann: Styður Sjálfstæðisflokkurinn þetta frumvarp eða ekki? Er hann andsnúinn þessu frumvarpi eða telur hann að gera þurfi veigamiklar breytingar á þessum greinum sem hann taldi upp, eins og 12. gr., að hún sé of matskennd? Hver er afstaða hv. þingmanns, og eftir atvikum þingflokksins, til þessa frumvarps eins og það liggur hér fyrir og forsætisráðherra er búin að mæla fyrir? Ég er farinn að efast um að stjórnarflokkarnir styðji þetta frumvarp. Ég er ósammála því að það takmarki erlendar fjárfestingar. Ég held að það gæti einmitt aukið erlendar fjárfestingar og ég held að Íslendingar ættu að fara að spyrja sig hvernig stendur á því að við erum með eins litlar erlendar fjárfestingar og raun ber vitni. Ég get komið að því líka í ræðu minni hér á eftir. En það væri mjög fróðlegt að fá að vita hver afstaða hv. þingmanns er til frumvarpsins óbreytts og hvernig breytingar hann vilji þá sjá.