154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

áætlanir um uppbyggingu húsnæðis.

[15:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Strax árið 2016 var ljóst að það væri skortur á íbúðum á Íslandi. Íbúðaskortur þróaðist hratt árin sem komu í kjölfarið og mátti spá um skort upp á 8.000 árið 2021. Í ályktun frá BSRB árið 2016 er sagt að það sé mikilvægt að tryggja tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á því, aðgang að öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu leiguverði. Stefna Pírata í kosningum 2021 var að byggja 2.000 íbúðir til viðbótar við það sem þá var gert til þess að vinna upp þessa óuppfylltu íbúðaþörf. En núna erum við að sjá kjarasamninga þar sem stjórnvöld segja að öflug uppbygging sé nauðsynleg, að áhersla verði á öfluga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við þörf og stutt verði við byggingu 1.000 íbúða á ári á samningstímanum með stofnframlögum til almennra íbúða og hlutdeildarlánum. Þetta er rosalega áhugavert því að þetta er nákvæmlega sama stefna stjórnvalda og fyrir ári síðan, 1.000 íbúðir. Þar voru stofnframlög tvöfölduð, úr 500 upp í 1.000. Samt er verið að lofa þessum 1.000 íbúðum einhvern veginn aftur í kjarasamningunum sem er nýbúið að undirrita. Er það réttlætanlegt að endurnýta svona loforð fyrir kosningar aftur fyrir kjarasamninga? Getur ríkisstjórnin komið með loforð um 1.000 íbúðir í fyrra, sagt það aftur í ár og einhvern veginn tekið aftur heiður fyrir það að koma með nýjar íbúðir, sem eru ekkert nýjar þar sem það var þegar búið að lofa þeim? Það er búið að kalla eftir aðgerðum a.m.k. síðan 2016. Þrátt fyrir allar tilraunir ríkisstjórnarinnar er staðan á húsnæðismarkaðnum eins og hún er, þrátt fyrir loforðin ofan í kjarasamningana núna. (Forseti hringir.) Stefnan hefur því ekki breyst en það þarf augljóslega að uppfæra áætlanir. Sér ríkisstjórnin það ekki?