154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

skýrsla um Hvassahraunsflugvöll.

[15:50]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Jú, það er rétt að ný loftferðalög og sú umgjörð sem þar skapast er tæki sem við eigum að nota til að hafa ákveðið samstarf, auðvitað með þeim sveitarfélögum þar sem flugvellir eru en líka þannig að við sýnum hvernig við tryggjum þessa þjónustu í sessi. Eitt af því sem þar hefur verið nefnt er bygging og endurbygging flugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli sem ég tel vera mjög mikilvæga. Sú aðstaða sem þar er í dag er ekki mannsæmandi, hvorki fyrir þá sem þar vinna eða gesti. Það er líka rétt sem hv. þingmaður segir að það eru miklar væntingar um byggingar. Það var t.d. farið af stað með þetta Hlíðarendahverfi án þess að skoða nokkur áhrif á eitt eða neitt. Það var byggt bara nýlega skýli Landhelgisgæslunnar á miðjum flugvellinum án þess að það væri skoðað sérstaklega hvaða áhrif það hefði. Það hefur hins vegar verið talsverð skoðun í gangi, að frumkvæði mínu, varðandi byggingar í Skerjafirði. Þessar hugmyndir Háskólans í Reykjavík um talsvert mikla uppbyggingu eru ekki nýjar en ég geri mér grein fyrir því að þær hafa ekki farið í sérstaka skoðun. Ég held að það væri æskilegt. (Forseti hringir.) Skipulagsvaldið varðandi allt þetta er auðvitað hjá Reykjavíkurborg og það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að samtalið milli Isavia og Reykjavíkurborgar sé sem eðlilegast og ég hef beitt mér fyrir því að svo verði.