154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

Fíknisjúkdómurinn.

[16:28]
Horfa

Brynhildur Björnsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hefja þessa mikilvægu og marghliða umræðu og öllum þeim sem hafa tekið til máls hér í dag og sýnt hinar fjölbreyttu hliðar hennar. Mig langar aðeins til að bæta við umræðuna út frá kynjuðu sjónarmiði. Það er nokkur munur á kynjunum þegar kemur að fíknivanda. Þar hafa bæði líkamlegir og félagslegir þættir áhrif sem gera það að verkum að það eru ekki endilega sömu úrræði sem gagnast þessum hópum. Í meðferð við fíknivanda eru konur afar berskjaldaðar. Margar þeirra eiga erfiða lífsreynslu að baki, einkum þær sem hafa verið í harðri neyslu og upplifað heimilisleysi. Þær hafa iðulega orðið fyrir ýmiss konar ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu, og vændi, bæði gegn greiðslu í peningum en einnig svokölluðu nauðarvændi fyrir lífsnauðsynjum eins og húsaskjóli, mat eða fíkniefnum. Margar þessara kvenna hafa ekki fundið fyrir nokkru sem líkist öryggi í mörg ár en öryggistilfinning er frumforsenda þess að ná að vinna að bata og takast á við erfiða fortíð. Það er því lykilatriði að konur í fíknimeðferð séu aldrei í þeirri stöðu að upplifa að öryggi sínu sé ógnað í meðferðinni, að þær eigi ekki á hættu að mæta þeim sem t.d. keyptu af þeim vændi á þeim vettvangi eða misnotuðu aðstöðu sína gagnvart þeim að öðru leyti. Hvort tveggja þekkjum við dæmi um úr opinberri umræðu og fréttaflutningi og ekki rata öll dæmi í fjölmiðla. Þá þekkjum við líka því miður dæmi þess að konur verði í meðferð fórnarlömb einstaklinga sem misnota traust þeirra og eyðileggja þann árangur sem þær ná með skelfilegum afleiðingum. Ef meðferð er miðuð að sérþörfum meðferðarþega aukast líkur á árangri og meðferðarheldni. Það er því grundvallarskilyrði fyrir því að þessum konum vegni vel í meðferð að tekið sé tillit til þessara þarfa.

Frú forseti. Fíkn er alvarlegur sjúkdómur sem hefur bein eða óbein áhrif á þúsundir Íslendinga dag hvern. Það er lykilatriði að koma til móts við fíknisjúklinga þar sem þeim gagnast best svo þeir megi ná tökum á vanda sínum. Kynjaskiptar meðferðir eru þar mikilvægur þáttur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)