154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

hjúkrunarheimili á landsbyggðinni.

774. mál
[17:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að hæstv. heilbrigðisráðherra er með hugann við þennan mikilvæga málaflokk og að það hafi verið lagt fram svokallað viðbótarsmæðarálag. Rekstur hjúkrunarheimila er mismunandi. En varðandi fyrstu spurninguna, þ.e. líti maður á fjárheimildir í fjárlögum þá virðist vera svo að um undirfjármögnun sé að ræða á hjúkrunarheimilum á landsbyggðinni og sérstaklega á hinum minni hjúkrunarheimilum, ef maður horfir á tölur um hallarekstur eins og t.d. á Skagaströnd. Smæðarálagið er hugsað þannig að reksturinn nái utan um hin minni hjúkrunarheimili í landinu. Svo virðist ekki vera í öllum tilvikum. Það er margt að skoða í þessu samhengi og líka það að hjúkrunarheimili á hinum minni stöðum í landinu eru mikilvægir vinnustaðir og eru nánast einn af grundvöllum fyrir byggð í allra minnstu sveitarfélögunum. Ég get tekið sem dæmi að deyi einn vistmaður og það losnar rými en það kemur ekki strax nýr vistmaður inn og það þarf að bíða í nokkra mánuði eftir nýjum vistmanni, þá getur þetta haft mikil áhrif á rekstrargrundvöll hjúkrunarheimilisins, t.d. bið í þrjá, fjóra mánuði. Þetta er kannski níu eða tíu rýma hjúkrunarheimili og þá skiptir máli ef tvö, þrjú rými eru ekki fyllt, komi ekki annar vistmaður inn strax í staðinn. Það þarf jafnvel líka að huga að svokallaðri brúarfjármögnun á meðan hjúkrunarheimilin eru að fá nýjan vistmann inn, þannig að það ríði ekki rekstrinum að fullu takist það ekki strax.

Ég tel líka mjög mikilvægt að halda utan um fjölbreytileikann í þessum rekstri, að þetta safnist ekki allt saman í eina verksmiðju hérna á höfuðborgarsvæðinu og að tekið sé tillit til íbúa héraða úti á landi, fólks sem vill dvelja síðasta hluta ævinnar í byggðarlagi sínu, í sinni sveit, í sínu héraði og þá með sínu heimafólki. Þá er mikilvægt að standa á bak við þennan rekstur (Forseti hringir.) því að það er algerlega óásættanlegt að sveitarfélögin óttist það að skili þau rekstrinum til ríkisins verði reksturinn lagður niður (Forseti hringir.) og fluttur og sameinaður stærri rekstri. (Forseti hringir.) Þetta er því mikið hagsmunamál fyrir hin minni sveitarfélög í landinu.