154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

skipulögð brotastarfsemi, vopnanotkun og refsiheimildir.

570. mál
[18:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Eins og ég kom inn á áðan þá hafa lögregluyfirvöld varað við uppgangi skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi síðustu ár, hún er talin töluverð og áhættan mikil. Á sama tíma hefur reynst erfitt að ná fram sakfellingu fyrir dómi í málum sem snúa að skipulagðri brotastarfsemi og vegna þessa kann að þurfa að skoða hvort gera þurfi breytingar á ákvæðinu sem snýr að skipulagðri brotastarfsemi þannig að það sé betur til þess fallið að ná markmiði sínu.

Hvað varðar þyngri refsiheimildir má sem dæmi nefna að í Noregi er mælt fyrir um þyngri refsingu ef refsivert brot er framið sem hluti af starfsemi skipulagðra brotahópa. Í núverandi löggjöf okkar er það almenn refsiþyngingarástæða ef brot eru framin í félagi, en að mínu mati er vert að skoða kosti og galla þess að mæla fyrir um þyngri refsingu við brotum sem eru framin sem hluti af starfsemi skipulagðra brotahópa líkt og Norðmenn hafa gert. Í almennum hegningarlögum er mælt fyrir um það á nokkrum stöðum en það geti verkað til refsiþyngingar ef brot er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt. Ef ætlunin væri að bæta við refsiheimild í íslensk lög vegna þess, og þá er ég að tala um svokallað niðurlægingarofbeldi, þá þyrfti að byrja á því að skilgreina hvað það felur í sér, en það á sér margar birtingarmyndir. Ég veit til þess að í Danmörku hefur komið til umræðu að setja inn almenna refsiþyngingarástæðu ef refsivert brot er framið á sérstaklega niðurlægjandi hátt. Að mínu mati er sjálfsagt að skoða og meta hvort þörf sé á slíku ákvæði til viðbótar við þau ákvæði sem eru í núverandi löggjöf og hvort slíkt ákvæði væri til þess fallið að auka réttarvernd og fælingarmátt.

Ég vil í blálokin bara fá að deila því hér með þinginu að ég er á leiðinni í næstu viku á ráðstefnu í Svíþjóð á samnorrænan ráðherrafund dómsmálaráðherra Norðurlandanna þar sem fundarefnið er með áherslu á skipulagða brotastarfsemi og þátttöku barna og unglinga í henni, enda er staðan alvarleg í nágrannalöndum okkar hvað þetta varðar.