154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

stjórnsýslulög.

787. mál
[16:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37 frá árinu 1993. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt var meginmál EES-samningsins lögfest á Íslandi með lögum nr. 2/1993. EES-reglurnar eru teknar upp í íslensk lög eða reglugerðir og birtast þannig sem hefðbundnar réttarheimildir að íslenskum rétti. Túlkun íslenskra laga og reglugerða sem hafa innleitt slíkar reglur getur af ýmsum ástæðum verið flóknari en gengur og gerist um almenna túlkun landsréttar.

Í 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er mælt fyrir um lögsögu EFTA-dómstólsins til þess að gefa ráðgefandi álit um skýringu á EES-samningnum til að tryggja að túlkun EES-réttarins í EFTA-ríkjunum sé samræmd og vegna þessa ákvæðis voru sett lög árið 1994, nr. 21, sem kveða á um að héraðsdómstólar, Landsréttur, Hæstiréttur og Félagsdómur geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á samningnum.

Nú er það hins vegar svo að sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem fást við úrlausn kærumála geta staðið frammi fyrir flóknum álitaefnum á sviði EES-réttar. Í fyrrnefndum lögum, nr. 21/1994, eru sjálfstæðar stjórnsýslunefndir ekki nefndar á meðal þeirra aðila sem leitað geti ráðgefandi álits. Þess finnast dæmi í úrskurðarframkvæmd fleiri en einnar nefndar að kröfu málsaðila um að leita ráðgefandi álits sé hafnað eða nefndin hverfi frá fyrirætlunum þess efnis á þeim grundvelli að lög nr. 21/1994 girði fyrir möguleikann á því. Allt að einu finnast engin dæmi þess að sjálfstæð stjórnsýslunefnd hér á landi hafi leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins ef frá er talin kærunefnd útboðsmála sem hefur frá árinu 2013 haft heimild, í lögum um opinber innkaup, til að leita ráðgefandi álits og nýtt þá heimild tvisvar á þessum tíma.

Í þessu ljósi er áhugavert að horfa til þess að EFTA-dómstóllinn hefur um áratuga skeið veitt sjálfstæðum stjórnsýslunefndum í Noregi og Liechtenstein ráðgefandi álit um skýringu á EES-samningnum við úrlausn kærumála. Þar má nefna áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda í Noregi, kærunefnd vegna ákvarðana fjármálaeftirlitsins í Liechtenstein og fleira mætti telja. Það hefur dómstóllinn gert á grundvelli 34. gr. fyrrnefnds samnings um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls þar sem kveðið er á um að dómstóll eða réttur í EFTA-ríki geti leitað ráðgefandi álits.

Herra forseti. Í ljósi þess að hér á landi hefur túlkun á möguleikum sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar til að leita ráðgefandi álits ekki verið einhlít er lagt til að bætt verði við stjórnsýslulögin ákvæði um að sjálfstæðar stjórnsýslunefndir sem fást við úrlausn stjórnsýslukæra geti leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins þegar vafi leikur á um skýringu á EES-samningnum. Lagt er til að þetta ákvæði verði hluti af VII. kafla stjórnsýslulaga sem inniheldur almennar reglur um stjórnsýslukærur og málsmeðferð í kærumálum. Af ákvæðum íslenskra laga verður ráðið að til viðbótar við kærunefnd útboðsmála teljist 13 sjálfstæðar stjórnsýslunefndir á kærustigi, þ.e. kærunefndir, og að þær teljist vera dómstóll eða réttur í skilningi 34. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og geti þar af leiðandi leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Við mat á því er litið til þess að nefndunum er komið á fót á grundvelli laga. Starfsemi þeirra er ótímabundin. Þær eru sjálfstæðar í störfum sínum. Úrlausn þeirra á réttarágreiningi er bindandi fyrir málsaðila. Nefndunum er skylt að fylgja lögum við úrlausn mála. Loks njóta aðilar jafnræðis við meðferð máls og málsmeðferðin er sambærileg því sem almennt gerist hjá stjórnsýsludómstólum í Evrópu. Þá er í íslenskum rétti einnig mælt fyrir um sjálfstæðar stjórnsýslunefndir á fyrsta stjórnsýslustigi sem teljast uppfylla framangreind skilyrði.

Herra forseti. Þessi áform um lagasetningu og drög að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og þar er hægt að kynna sér efni einstakra umsagna. Helstu athugasemdir sem bárust varða lengri málsmeðferðartíma sem öflun ráðgefandi álits getur haft í för með sér og mögulegan kostnað. Verði frumvarpið að lögum getur öflun ráðgefandi álits haft í för með sér að málsmeðferðartími hjá sjálfstæðri stjórnsýslunefnd verði lengri en hann hefði ella verið. Ég vil þó benda á í því samhengi að ráðgefandi álits er jafnan aðeins aflað í flóknustu málunum sem oft eru líkleg til að hafa fordæmisgefandi áhrif á mál sem síðar kunna að koma upp. Þá getur öflun ráðgefandi álits aukið líkur á að aðili eða aðilar að máli þar sem þess er aflað felli sig við þá niðurstöðu sem komist er að í málinu og ætti það þá að draga úr líkum á því að slíku máli sé í framhaldinu skotið til dómstóla. Ég tel það því réttlætanlegt að málsmeðferðartími geti orðið lengri í málum þar sem leitað er ráðgefandi álits. Þó að það sé sjálfstæðri stjórnsýslunefnd að kostnaðarlausu að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins kann aðili að máli að bera kostnað vegna öflunar álitsins. Ekki er kveðið á um það í frumvarpinu hvort og þá að hve miklu leyti ríkissjóður skuli koma til móts við hann að þessu leyti. Aðili að máli þar sem leitað er ráðgefandi álits hefur ýmsar leiðir til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri án þess að til þurfi að koma mikill kostnaður og án þess að réttaröryggi hans sé skert með neinum hætti.

Í úrskurði um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er jafnan að finna umfjöllun um málatilbúnað aðila málsins. Þá getur aðili skilað skriflegri greinargerð til dómstólsins og flutt mál sitt munnlega með eða án aðstoðar lögmanns gegnum fjarfundabúnað. Ég vil líka nefna í þessu samhengi að málsmeðferðarreglur EFTA-dómstólsins innihalda ákvæði um gjafsókn til aðila að nánari skilyrðum uppfylltum. Samþykkt þessa frumvarps getur leitt til þess að sjálfstæðar stjórnsýslunefndir leiti í auknum mæli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Ekki er þó hægt að slá því föstu hve oft það verði gert. Ljóst er að hingað til hafa bæði dómstólar sem og kærunefnd útboðsmála gætt mikillar varfærni við mat á því hvort leita skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Þar sem öflun ráðgefandi álits er sjálfstæðri stjórnsýslunefnd að kostnaðarlausu er ekki búist við því að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Herra forseti. Ég hef hér gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins sem er stutt og felur bara í sér eina viðbótargrein við stjórnsýslulögin. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.