154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[16:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Gott og blessað að fá þessa tillögu. Það eru nokkur atriði sem ég klóra mér aðeins í hausnum yfir. Til að byrja með er talað um að það sé ákveðinn kostnaðarauki þarna á bak við en eins og venjulega er ekkert mat á áhrifum. Við vitum ekkert hvað þetta kostar. Þegar allt kemur til alls erum við að taka ákvörðun um aðgerðir með því að samþykkja þetta án þess að vita hvað þær kosta. Það er gert í fjármálaáætlun. Þess vegna velti ég fyrir mér: Til hvers er, eins og í síðasta máli, þörf á þessu máli í þinglega meðferð þegar það er einfaldlega bara hægt að gera þetta?

Tökum t.d. eina af aðgerðunum, með leyfi forseta:

„Táknmálstalandi nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum njóti náms og kennslu við hæfi.“ — Já, er það ekki nú þegar lögbundið? Þarf að ítreka það eitthvað meira? Gerist eitthvað áþreifanlegt ef við samþykkjum þessa tillögu eða þurfum við að bíða eftir því að við samþykkjum fjármálaáætlun sem væri með fjárheimildir til að gera eitthvað í því sem væri samþykkt?

Ég spyr því í rauninni: Er ekki hægt að gera það sem stendur þarna, svipað eins og áðan, er ekki hægt að framkvæma lögin eins og þau eru eða eru vandamál með fjárheimildir sem við getum í rauninni ekki tekið ákvörðun um í þessari tillögu og ekki fyrr en í fjármálaáætlun og fjárlögum?