154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[18:21]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður spyr hvort ég telji líkur á því að minjaverndin verði undir. Í fyrsta lagi er þetta ekki samkeppni en ef ég myndi telja að þetta væri ekki gott fyrir minjavernd myndi ég ekki leggja frumvarpið fram. Það er reyndar þannig, og ég kann að meta það, að það er mjög sanngjarnt þegar hv. þingmaður talar um skýrslu hv. þm. Birgis Þórarinssonar. Af hverju varð sú skýrsla til? Vegna þess að ég ákvað það. Vegna þess að það er mjög mikilvægt að minjavernd á Íslandi sé gert hærra undir höfði. Ef einhver trúir því að einhverjum málaflokki sé gert hátt undir höfði með því að hafa stofnanir mjög litlar þá er ég bara ósammála viðkomandi einstaklingi sem heldur slíku fram. Ég held hins vegar að það skipti miklu máli að menn skrifi það eins vel út og hægt er að slíkt megi ekki gerast.

Hv. þingmaður er þingmaður kjördæmis sem er víðfeðmt, sem er bæði með mikla náttúru og menningarminjar. Er hv. þingmaður ekki sammála því að við eigum að líta á hvort tveggja? Í kjördæmi hv. þingmanns er t.d. svæði sem er mér er mjög kært, Siglunes. Af hverju nefni ég Siglunes? Vegna þess að maður kann að meta náttúruminjarnar þar. Reyndar er mjög mikið af menningarminjum þar líka. Eigum við bara að líta á annaðhvort ekki hvort tveggja? Ég spyr hv. þingmann: Er það þannig að við eigum að fara í viku 1 eða viku 21 að skoða náttúruminjarnar og í viku 22 menningarminjarnar? Vill hv. þingmaður í alvöru líta á það svæði og önnur svæði á landinu án þess að skoða hvort tveggja?