154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[18:33]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú að reyna að leiðrétta þennan misskilning þannig að þetta komi nú skýrt, hæstv. ráðherra virðist hafa misskilið þetta. Það sem ég var einfaldlega að segja var að það kemur fram í frumvarpinu að það eigi að flytja störf út á land og efla úti á landi en frumvarpið mun í heild sinni ekki verða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Það kemur fram í mati fjármálaráðuneytisins. Á móti kemur að ef menn eru að efla úti á landi með sömu upphæð þá hlýtur það að leiða til þess að menn séu að draga störfin út á land. Mér finnst það bara jákvætt og ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að það þarf ekkert að vera dýrara. En sporin hræða, fyrir okkur sem búum úti á landsbyggðinni. Sporin hræða vegna þess að við sjáum það einfaldlega að þegar höfuðstöðvarnar eru komnar í annan landshluta, sem oftast er þá höfuðborgarsvæðið, þá fylgja þessi meginsérfræðistörf eftir, það er alveg rétt sem kom fram fyrr í umræðunni, þau fylgja eftir til höfuðstöðvanna og útstöðvarnar verða kannski ekki burðugar. Þessu hefur maður áhyggjur af. Maður sér það stundum í stjórnsýslunni og ég held ég hafi bent hæstv. ráðherra á það hér fyrr í vikunni að það er eins og að skilaboðin um brýn verkefni sem þarf að leysa úr komist ekki alla leið og til skila inn í umhverfisráðuneytið, í gegnum Umhverfisstofnun, þessi skilaboð og sjónarmið þeirra sem eru búsettir hringinn í kringum landið. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sjónarmið sem kom fram í umræðunni að hann vilji og ætli að efla þetta. Ég trúi því að hann hafi vilja til þess. En ég verð að segja það, það er rétt að segja bara eins og er, að sporin hræða. Það er hægt að nefna mýmörg dæmi þar um.