154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

búvörulög.

505. mál
[11:13]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Í meðferð þessa máls höfum við lýst því yfir að við erum ávallt tilbúin til að bæta hag neytenda og bænda. Miðað við þær athugasemdir sem komið hafa fram, ekki einungis frá Samkeppniseftirlitinu heldur einnig frá VR, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, þar sem bent er á að með þessu sé verið að opna upp möguleika á of mikilli einokun í þessum iðnaði, verðum við að endurskoða það hvernig þetta mál hefur komið hér í gegn.

Eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson benti á komu fram athugasemdir í gær um að það væru það veigamiklar breytingar á frumvarpinu að í raun væri um nýtt frumvarp að ræða. Þar af leiðandi væru umsagnir sem áður hefðu verið gefnar ekki lengur nothæfar heldur þyrfti að skoða málið alveg frá grunni. Samkeppniseftirlitið skoðar frumvarpið með þessum breytingartillögum og kemst að því að þarna sé verið að ganga mun lengra en nokkurs staðar annars staðar. Það er þrátt fyrir það sem bent er á í hinu annars ágæta nefndaráliti meiri hlutans þar sem þetta er borið saman við það sem gerist í hinum og þessum löndum. Bæði Samkeppniseftirlitið og VR, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu og Félag atvinnurekenda benda á að þessar breytingar feli í sér að kjötafurðastöðvum verði heimilt að sameinast án takmarkana, öllum. Það þýðir að við verðum komin með Kjötafurðir hf., væntanlega, eitt fyrirtæki sem sér um allt og hefur þar af leiðandi einokunarstöðu á Íslandi og getur hækkað verðið gagnvart okkur neytendum án þess að við getum nokkuð gert. Það sama gildir um það hvað er borgað til bænda því að það verður bara ein afurðastöð eftir.

Þetta er alls ekki það sem við vildum gera með þessum breytingum. Það er líka þannig að afurðastöðvum verður heimilað að hafa með sér hvers konar samráð, m.a. um verkaskiptingu, verðlagningu eða aðra þætti. Þetta er nokkuð sem er ólöglegt og refsivert í öðrum greinum. Þarna ætlum við bara að leyfa þeim að segja: Ókei, nú kostar kílóið af lambakjöti 5.000 kr. og nú borgum við bændum 500 kr. Þetta geta stöðvarnar þegar það eru bara ein eða tvær eftir. Það er einfaldlega þannig. Þetta gildir líka um allar tegundir af kjötafurðastöðvum, jafnvel þær sem eru í dag með ráðandi stöðu. Þær geta bara farið að einoka án þess að þurfa að fylgja reglum. Þetta mun aðeins leiða til eins, þetta mun stórskaða hagsmuni neytenda, bænda, launþega og verslunar. Við munum sjá þetta fara beint út í verðlagið. Sem þýðir hvað? Jú, það sem við höfum verið að reyna að berjast á móti, það sem heitir verðbólga, mun bara halda áfram að hækka. Matarkarfan mun halda áfram að hækka. Það verður erfiðara og erfiðara fyrir fólk að ná endum saman af því að þessar örfáu stöðvar sem eftir verða verða algerlega einokandi. Þetta er því miður það sem við stöndum frammi fyrir.

Fáandi þessar athugasemdir, fáandi þessar umsagnir á síðustu metrunum héldum við að kannski væri hægt að fá að ræða þetta mál frekar, það væri kannski hægt að skoða þetta mál dýpra. Nei, það eru meira að segja haldnir kvöldfundir í nefndum til að koma þessu í gegn sem hraðast. Eins og um eitthvert dagsetningarmál sé að ræða. Maður spyr sig: Er eitthvað sem við vitum ekki um? Er eitthvað að fara að gerast um páskana sem gerir það að verkum að menn halda að þetta frumvarp geti ekki fengið umræðu næstu tvær til þrjár vikurnar og kannski komið betra undan feldi? Ég spyr: Hvað stoppar okkur í því að vinna málið almennilega? Við höfum ekki getað fengið svar við því í atvinnuveganefnd. Þegar ekki er um dagsetningarmál að ræða, þegar það skiptir virkilega engu máli hvort þetta leysist núna, 21. mars, eða 21. apríl, af hverju getum við þá ekki unnið hlutina vel hér á þingi? Af hverju þurfum við að sitja uppi með eitthvað sem mun jafnvel stórskaða neytendur og bændur af því að við lásum ekki og unnum ekki hlutina nógu vel? Það er það sem ég er hræddur um.

Ég hvet því, eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson, stjórnarmeirihlutann eindregið til þess að fresta afgreiðslunni og skoða málið betur. Við erum tilbúin að mæta á nefndafundi alla daga yfir páskana ef þess þarf, bara með páskaegg með okkur eða páskalamb, og skoða þetta og finna hvort ekki sé hægt að gera einhverjar lagfæringar til að við tryggjum hag bænda og neytenda gagnvart einokun. Það er það sem er mikilvægast í þessu öllu saman. Ég skora enn og aftur á stjórnarmeirihlutann að skoða það.