154. löggjafarþing — 90. fundur,  21. mars 2024.

breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga.

864. mál
[15:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það liggur fyrir að samþætt sérfræðimat verði framkvæmt af Tryggingastofnun og hópur á vegum Tryggingastofnunar hefur núna frá því í janúar verið að undirbúa gerð þessa mats undir stjórn sérfræðings eða doktors frá Háskólanum í Reykjavík og öll grundvallaratriði liggja fyrir í því til hvaða þátta matið á að taka. Það þarf að meta líkamlega, sálræna og félagslega þætti þannig að við erum að fara yfir í heildrænt mat. Ég mun skipa núna á næstu dögum mjög stóran samstarfshóp til þess að vinna að þessu mati. En ég skil alveg áhyggjur hv. þingmanns af því að vita ekki meira um hvernig matið verði og þess vegna hyggst ég að sjálfsögðu, núna þegar við förum að sjá hvernig það mótast í meðförum þeirra sérfræðinga sem þetta verði falið, gera hv. velferðarnefnd grein fyrir þeirri vinnu eftir því sem henni vindur fram.