154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

staða heilsugæslunnar.

[10:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir að gefa mér færi á að ræða akkúrat þetta mál. Hv. þingmaður vísar hér í skýrslu. Það er rétt, það eru ágætistillögur sem við höfum verið að vinna með í ráðuneytinu og við höfum átt mjög góð samtöl við m.a. Félag íslenskra heimilislækna og heilsugæsluna einmitt í þeim tilgangi að auka skilvirkni, auka þjónustuna við viðskiptavininn. En við skulum líka minna okkur á að hlutverk heilsugæslunnar er að vera leiðbeinandi aðili, að vera leiðsagnaraðili í gegnum kerfið okkar, í gegnum þau ólíku stig sem við höfum sett inn í skipulag okkar á heilbrigðisþjónustu. Þarna er fyrsta stigið, þarna fer greiningin fram og auðvitað er kallað eftir þjónustu þar, m.a. um það hvað og hvort frekari þjónustu þurfi og þá hvar og hjá hverjum og á hvaða sérfræðisviði. Staðan nú er sú að við höfum farið í gegnum öll þau vottorð og allar þær tilvísanir. Meðal þess sem verið hefur mjög hávær krafa um eru tilvísanir barna og við erum með þetta í skoðun og eins tillögur sem eru núna til umfjöllunar hjá félagi heimilislækna, hjá heilsugæslunni, hjá þeim aðilum sem eru að sinna þjónustunni. Ég vænti þess að bara á allra næstu dögum getum við raungert þær aðgerðir sem standa til. Þær eru einmitt til þess fallnar og hugsaðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu, að það geti betur flætt á milli þjónustustiga og dregið þannig úr álaginu að, einmitt eins og hv. þingmaður sagði, við getum nýtt til að mynda þjónustuna og sérfræðiþekkinguna meir og betur með viðskiptavininum, með sjúklingnum.