154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:16]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Af því að vika er löng í pólitík og það eru þrjár vikur síðan frumvarpi um búvörulög var hraðað í gegnum þingið þá er kannski rétt að rifja upp fyrir þingheim að hér lá fyrir frávísunartillaga. Hér lá fyrir tillaga þingmanna Pírata og Flokks fólksins um að vísa frumvarpinu til ríkisstjórnar frekar en að flýta því hér í gegn vegna þess að það væri ekki búið að meta áhrif frumvarpsins á bændur, á neytendur eða hvaða áhrif þetta gæti haft á kjarasamninga, af því að við höfðum í höndunum gagnrýni úr öllum þessum áttum. Það eitt að það væri óljóst hvaða áhrif frumvarpið hefði, það hefði átt að duga stjórnarliðum til að taka í handbremsuna, stoppa þetta mál, anda í kviðinn yfir páskana og kalla til umsagnir um málið. Þó að hæstv. forsætisráðherra hafi hitt einhverja bændur á hlöðuballi um helgina þá kemur það ekki í staðinn fyrir þinglega meðferð með greiningum og umsögnum.