154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Málið snýst ekki um það hvenær þingmálið kom upprunalega fram til þingsins (Gripið fram í.) heldur snýst það um breytingartillögurnar sem voru lagðar fram á síðustu stundu. Stórtækar breytingartillögur sem eru lagðar til á síðustu stundu og umsagnaraðilar fá ekki tækifæri til að meta hvort þær séu í rauninni efnisleg breyting á frumvarpinu eða ekki. Um það snýst málið. Alla jafna samkvæmt lögum um þingsköp, þegar gerðar eru miklar breytingar á frumvörpum, þá ber þingnefndum að meta fjárhagsleg umsvif þess máls. Ég skal fullyrða að það var alveg örugglega ekki gert í þessu tilviki þó að ég viti það ekki, en að gefinni reynslu var það örugglega ekki gert. Ég læt mér duga að giska á það en ég er 100% viss um að það sé rétt. Þegar við fáum miklar breytingar — við höfum meira að segja áður fengið mál þar sem hafa verið gerðar umfangsmiklar breytingar og þá er einmitt sagt: (Forseti hringir.) Heyrðu, við verðum að fá annan umsagnarhring til að athuga hvort þetta sé ekki allt í lagi. Það var ekki gert hérna heldur rúllað í gegn. Það þurfti að klára þetta. Það eitt og sér bendir til þess að það sé eitthvað annarlegt í gangi hérna.