154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

staðan í heilbrigðismálum.

[15:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir fyrirspurnina sem er ansi fjölþætt. Hún endaði sína fyrirspurn á því og spyrja hvort markmiðunum væri náð og þá er freistandi fyrir þann sem hér stendur að svara því bara játandi. (HKF: Ég óska þess að hæstv. ráðherra geri það. ) Af því að hv. þingmaður byrjaði á því að ræða þetta í samhengi þeirra mála sem nýbreytt ríkisstjórn hefur fjallað um að þurfi að nást samstaða um, þá er auðvitað full samstaða um að halda áfram uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu og full samstaða í ríkisstjórn. Það er mín reynsla hér í þingsal og með stjórnarandstöðu að það er samstaða um að byggja upp í heilbrigðiskerfinu.

Við höfum verið á þeirri vegferð að reyna að nýta öll okkar úrræði sem hið blandaða kerfi okkar býður upp á. Hv. þingmaður kemur inn á heilsugæsluna og það er rétt, það hefur verið mikið álag á heilsugæslu og það er umræða um hana og við vinnum stöðugt að því að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað eins og heilbrigðisstefnan til 2030 felur í sér. Það er mjög viðamikið hlutverk sem við höfum ætlað heilsugæslunni. Við höfum verið að efla vaktþjónustu og styrkja mönnun. Mönnun hefur verið að styrkjast í heilsugæslunni, ekki bara læknamönnun heldur alveg þvert á sviðið. Við höfum til að mynda eflt mjög geðheilbrigðisþjónustu í gegnum heilsugæsluna með geðheilsuteymum og það er stöðugt verið að vinna að því. Við erum búin að efla hér mjög sérnám og það eru bara mjög jákvæðar horfur um öfluga læknamönnun núna á næstu þremur árum. Þá erum við að fá 50–60 lækna (Forseti hringir.) inn í kerfið. Ég gæti lengi talið hér og skal reyna að fara lengra með það í seinna andsvari.