154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

Menntasjóður námsmanna.

935. mál
[19:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni sína ræðu. Ég fletti því upp til gamans hvenær hv. þingmaður hefði lokið háskólanámi og ég vona að ég sé ekki að uppljóstra leyndarmálum, ég sé að hún hefur verið yfir þrítugt sem er einmitt það dásamlega við háskólakerfið okkar. Íslenskir stúdentar eru eldri en gengur og gerist erlendis og við höfum byggt upp kerfi þar sem það er bara normal. Erlendis er menntabrautin svo stíft skilgreind, þetta er nánast bara eins og færiband. Þú klárar framhaldsskóla 18 ára og þá ferðu beint í háskóla og klárar hann og svo er fólk kannski komið með doktorsgráðu 26 ára. Við höfum átt því láni að fagna að vera með kerfi sem leyfir einstæðum foreldrum að fara í nám, jafnvel á miðjum aldri, söðla um, vera félagslega hreyfanleg, geta beitt menntakerfinu sem hreyfiafli til þess að styrkja sig og bæta samfélagið í leiðinni. Ég nefni þetta bara vegna þess að mér fannst þessi þáttur veikjast dálítið þegar við samþykktum lög um Menntasjóð námsmanna. Ég heyri á hv. þingmanni að hún mun tala fyrir því að þessir þættir verði styrktir í þeirri stærri endurskoðun sem er fram undan.

En mig langar að spyrja um það, vegna þess að hv. þingmaður er nú í stjórnarflokki og getur kannski kíkt aðeins betur í kristalskúluna en við hin, að nú boðar ráðherra stærra frumvarp um Menntasjóðinn, kannski undir lok þessa árs. Í ljósi þess að ef við verðum ekki þegar farin í gegnum kosningar þá er það kosningavetur og með hliðsjón af því að heildarendurskoðunin tók allan veturinn 2019 til 2020 og það var ekki einu sinni kosningaár: (Forseti hringir.) Hversu vongóð eigum við að vera um að stjórnarflokkarnir nái saman um almennilegar úrbætur og geti komið með þær til þingsins svo við getum komið þeim í gegn?