154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[14:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig að það er hægt á góðum tímum að halda því fram að til séu gullgæsir sem skili alltaf gríðarlegum hagnaði og arði til eigenda sinna. En það koma líka tímar þar sem það þarf að hjálpa gullgæsinni að lifa, leggja henni til stórfé. Það er reynsla annarra þjóða, til að mynda Norðurlandanna eftir sambærilega hluti og gerðust hér á árunum 2008 og 2009 sem gerðust á Norðurlöndunum á tíunda áratugnum þegar bankar fóru í eigu ríkjanna þar. Og þar eins og hér tóku menn þá ákvörðun að það væri fullmikil áhætta að fjármálakerfið væri meira og minna í höndum ríkisins og hafa farið sömu leið og við erum að fara, að selja ákveðna hluti út aftur. Það er í því skyni sem við erum að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka; að minnka áhættuna en á sama tíma að tryggja að hér sé öflugt bankakerfi til staðar.