154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:42]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Þetta er áhugaverð umræða. Það var alla vega, ef minni mitt brestur ekki, full samstaða um það á sínum tíma hjá stjórnarandstöðunni að skipa þyrfti rannsóknarnefnd til þess að velta öllum steinum við í þessari bankasölu sem var seinast. En í staðinn kallaði þáverandi fjármálaráðherra sjálfur eftir rannsókn ríkisendurskoðanda og í kjölfarið tók umboðsmaður Alþingis málið upp. En enn er mörgum spurningum ósvarað. Það hlýtur að vera mikilvægt, til þess að sátt ríki um áframhaldandi sölu, að það sé verið að klára að selja þennan banka, að það sem fór úrskeiðis í síðustu sölu verði gert upp áður en við höldum áfram. Almenningur hlýtur að geta farið fram á það og við líka í þinginu sem eigum að hafa aðhald og eftirlit með svona hlutum, að við getum klárað þessa rannsókn, fengið allar upplýsingar upp á borðið, áður en við förum í áframhaldandi sölu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé enn á þeim stað, hvort hann sé enn fylgjandi því að fara í þá vegferð að skipa rannsóknarnefnd — ef hann var ekki sammála því bið ég hann að afsaka mig og leiðrétta, ef það er rangt hjá mér. Ég spyr líka hvort það sé ekki ábyrgðarhluti hjá ríkisstjórninni, sem hefur svona lítið traust en telur mikilvægt að fara í þá vegferð að selja bankann, að boða ekki til kosninga, að klára núna í haust; að boðað verði til kosninga og það komi ný ríkisstjórn með nýtt og sterkt umboð sem gæti þá stigið inn í þetta hlutverk og haldið áfram með þessi gríðarlega mikilvægu verkefni. Ekki það að ég sé endilega hlynnt því að selja bankann. (Forseti hringir.) En það er ótrúlega mikið af stórum og mikilvægum (Forseti hringir.) verkefnum sem stranda á því að þessi ríkisstjórn höndlar þau bara ekki.