154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi.

899. mál
[20:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og kannski sérstaklega fyrir að vera ekki að endurtaka of mikið úr framsögu í síðasta máli, það er engin ástæða til að tvítaka hluti og lengja þar með umræðuna. Ég ætla að gera það sama, ég ætla ekki að spyrja að sömu hlutum og ég ræddi í síðasta máli heldur langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um tvennt. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hvaða mat hafi farið fram, hvaða greiningar búi hér að baki, varðandi samspil vindorku við orkukerfið í heild sinni. Eins og hæstv. ráðherra vék að þá segja orkuverkfræðingar að vindorkan spili dálítið vel með þeim orkukostum sem eru í gangi í landinu í dag. Hún kallar hins vegar á nægjanlegt framboð af stýranlegri orku til jöfnunar. Í greinargerð er talað um að hvert vindorkuver þurfi að hafa á að giska 40% af jöfnunarorku til reiðu. Ef uppbygging vindorkuvera nær einhverju máli erum við mögulega að tala um dálítið mikla orku sem þarf að vera hægt að kalla þar til.

Ég held að ég láti þetta nægja í fyrra andsvari, þ.e. að spyrja hæstv. ráðherra hvaða mat við höfum á því hvaða þrýsting þetta geti sett á aðra þætti orkukerfisins okkar, á stöðugri orkukosti.