154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Menntasjóður námsmanna.

935. mál
[21:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að tefja þetta mál mikið. Eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson nefndi í ræðu sinni áðan þá hef ég lagt fram breytingartillögu við þetta frumvarp. Mér þótti mikilvægt að þessi breytingartillaga kæmi fram við 1. umræðu þessa máls þar sem við höfðum einmitt verið að ræða það, bara í gær, að það væri ekki gott að gera miklar breytingar í meðförum nefndar ef ekki hefðu verið þrjár umræður um málið. Þess vegna vildi ég koma þessari breytingartillögu að strax í dag. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir breytingartillöguna af því að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson gerði það og ég gerði það einnig að hluta til í minni ræðu í gær. Mig langar hins vegar að þakka sérstaklega þingfundaskrifstofunni fyrir aðstoðina við að koma þessari breytingartillögu saman því það er örlítið flóknara að gera breytingartillögu við frumvarp heldur en að gera frumvarp um breytingar á lögum. Það þarf svona aðeins að breyta orðalaginu miðað við það sem við höfum gert sambærilegt í okkar eigin frumvarpi. Mig langaði bara að koma fram þökkum til þingfundaskrifstofu og annarra starfsmanna sem unnu við þetta. Þeim er aldrei nógu vel þakkað það góða starf sem þau vinna.