154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Orkusjóður.

942. mál
[22:38]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið og tek undir það með honum að það að ávarpa niðurlagningu loftslagssjóðs eitthvað sérstaklega er í sjálfu sér heldur ekki eðli þessa máls vegna þess að það er í sjálfu sér verið að taka hugmyndina um loftslagssjóð eins og hún kemur fyrir í loftslagslögunum og leggja hana inn í lög um það sem yrði þá kallað Loftslags- og orkusjóður. Þannig að ég held að þetta sé allt saman á réttri leið í því samhengi og hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því. En ég veit að hv. þingmaður var í sjálfu sér bara að draga þetta upp til skýringar vegna yfirferðar annarra hv. þingmanna hér á umsögnum um málið í samráðsgátt.

Varðandi tekjuhlutann er það alveg satt og rétt sem hv. þingmaður segir, upphaflega var þetta tengt og átti að vera í samræmi við þær mögulegu tekjur sem hið opinbera hefði af þátttökunni í ETS-kerfinu. Hins vegar er það með breytingum á lögum um loftslagsmál frá árinu 2019, þ.e. á síðasta kjörtímabili, sem þessi 30. gr. er felld úr lögunum og rökin fyrir því voru þau, sem ég veit að hv. þingmanni er fullkunnugt um, að síðan 2016 höfum við ekki búið við sérstakar markaðar tekjur í samhengi íslenskrar löggjafar. Það er nú bara það sem gerist þarna í millitíðinni, frá 2012 til 2019, það er þessi löggjöf um 2016. En af því að ég veit að hv. þingmaður er að fiska eftir því hvað mér finnist í rauninni um burði sjóðsins og hvert viðmiðið ætti að vera þá finnst mér í sjálfu sér eðlilegt að horfa til teknanna í því samhengi. En það var líka kveðið á um það í upphaflegu greininni á sínum tíma að þetta væru ekki bara ETS-greiðslurnar heldur aðrar tekjur, hver svo sem skýringin á því var.

En það var jafnframt líka kveðið á um það í greinargerð með því frumvarpi — eða skoðun á mögulegri fækkun sjóða, því að hæstv. ráðherra kom inn á það hérna áðan (Forseti hringir.) og vísaði þar í langa umræðu — að ef niðurstöður úr skoðun sem slíkri (Forseti hringir.) bentu til þess að það ætti að fækka sjóðum þá yrði orðið við því. Þannig að það er nú ýmislegt í upphafinu sem má skoða.