154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Orkusjóður.

942. mál
[22:42]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið öðru sinni. Ég átta mig alveg á því að við munum finna marga fleti í samtali um akkúrat þetta mál og sannarlega áttum við það þegar síðustu breytingar á loftslagslögum voru gerðar — það var nú bara rétt fyrir jólin — þegar allt er varðar ETS-kerfið sérstaklega var flutt í sérstakan lagabálk. Þá sannarlega, eins og hv. þingmaður segir, vorum við að ræða þetta í samhengi bæði kostnaðar og tekna á vettvangi hv. umhverfis- og samgöngunefndar og einnig hér í þingsalnum.

En það er líka vert að halda til haga, og ég veit að hv. þingmaður og hans félagar í þingflokki Pírata hafa gagnrýnt það, framsetningunni á því hvað það er sem er að fara úr hinum ómarkaða sjóði ríkisins í þágu loftslagsaðgerða hérlendis. Það höfum við getað lesið og séð í fjármálaáætlunum fyrri ára og ég verð bara að viðurkenna það fyrir hv. þingmanni að ég er enn ekki farinn að skoða þá sem var dreift í dag, ég er búinn að vera upptekinn í öðru, og veit ekki hvort þar er sérstakar greinar að finna um það eins og ég held að sé reyndar til bóta fyrir okkur til þess að skýra … (Gripið fram í.) Er það komið? Blessunarlega og við höfum viljað hafa það þannig líka.

Það er spurning hvað maður horfir á sem fjárfestingu hins opinbera með útgjöldum úr ríkissjóði í þágu loftslagsmála. Ég veit að ég og hv. þingmaður verðum kannski seint sammála um það en ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið gerð töluverð gangskör í því með miklum fjárframlögum á mörgum plönum í tíð síðustu ríkisstjórnar í þágu loftslagsaðgerða. Við sjáum það á alls kyns sviðum. Eitt af því eru t.d. fjárframlög til almenningssamgangna eða uppbyggingar í samgöngukerfinu til að tryggja það að við getum hraðað orkuskiptum og við höfum séð ágætisteikn um það. Við verðum kannski seint sammála um það hvernig við nálgumst þetta en það er hægt að horfa á þessar tölur frá mörgum sjónarhornum.