154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

tímabil strandveiða.

[15:32]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég verð segja að það er bara ákveðinn kvóti sem Hafrannsóknastofnun gefur út. Af því eru 5,3%, eins og við þekkjum, í félagslega pottinum og þar undir eru strandveiðisjómenn og ég hyggst fylgja ráðgjöf Hafró í þessu samhengi. Það er kominn sem sagt reglugerðarauglýsing, ef hv. þingmaður veit ekki af því, þar sem Fiskistofa er núna að auglýsa eftir umsóknum um leyfi og undir eru 10.000 tonn. Ég svo sem er að skoða möguleika en ég er ekki viss um að allir átti sig á því að það eru fá lög, held ég hreinlega, eins niðurnjörvuð í sjávarútveginum og um strandveiðar. Þegar ég fékk bókina á borðið hjá mér áttaði ég mig á því að það er í rauninni fátt sem hægt er að gera sem einhverju skiptir, svona verulega, nema það fari fyrir Alþingi og gerðar verði lagabreytingar. Reglugerðarbreytingar eru ekki mjög svo auðveldar. Það er ekki hægt að tryggja bæði 48 daga úthald í núverandi lagaumhverfi og það verður bara að segjast eins og er að málið er með þeim hætti í upphafi að það krefst þess að breytingar sem stærri eru þurfa að fara fyrir þingið. Eins og hv. þingmaður þekkir þá lagði forveri minn í starfi fyrir þingið mál sem einmitt var fallið til breytinga til að jafna stöðuna, að mínu mati, sem náði ekki fram að ganga. Ég held að við séum alveg sammála um að við viljum meiri jöfnun í kerfinu heldur en er núna og ég er að reyna að skoða ákveðnar leiðir sem ég vona að hafi einhver áhrif í þá átt. En svo vil ég líka halda því til haga að það eru gríðarlega ólík sjónarmið innan þessa geira. Þó að Landssamband smábátaeigenda (Forseti hringir.) hafi tiltekna skoðun eru póstarnir sem ég hef í mínu pósthólfi þess eðlis að það eru 100 útgáfur af breytingum sem (Forseti hringir.) sjómenn telja að sé hægt að leysa sisvona, sem því miður er bara ekki hægt.